Bíó og TV

Birt þann 21. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Looper

Við mannverur erum ekkert án heildar. Í okkur er oftast tómarúm sem við leitumst eftir að fylla. Það er merkilega sterkt þema í sci-fi myndum, þ.e. einmannaleiki eða skortur á innihaldi.

Ridley Scott reið á vaðið árið 1982 með Blade Runner, og bjó til munstur sem að heil kynslóð af kvikmyndagerðarmönnum fer mikið eftir. Í þeirri mynd var Deckard, sem hann Harrison Ford lék, einsamall maður með starf sem þurfti að sinna. Í atburðarrás myndarinnar náði hann að tengjast annari mannveru (sem reyndist raunar vera vélmenni) og fann sér innihald sem honum fannst varið í að láta fylla upp í líf sitt.

Þegar við fyrst kynnumst Joe (Joseph Gordon Levitt) er hann starfandi sem „Looper“, en svo eru nefndir leigumorðingjar sem einungis aflífa mannverur sendar eru tilbaka úr framtíðinni. Árið er 2044, og 30 árum síðar er tímaflakk mögulegt, ásamt því að vera einstaklega ólöglegt. Sem þýðir að sjálfsögðu að þeir einu sem nota það eru glæpamenn, aðallega til að losa sig við einstaklinga sem þeir meta að þurfi að hverfa. Leigumorðingja lífið hans Joe er tómlegt partýstand, brotið upp af kvöldstundum með vændiskonum og djammi, og áhuga hans á að læra frönsku. Drepa, fá borgað, djamma, einvera, læra frönsku. Rinse and repeat.

Looper-ar eru nefndir sem slíkt sökum þess að þeirra starf er hringrás, einn daginn munu þeir drepa einhvern úr framtíðinni sem mun reynast vera þeir sjálfir, sem leiðir af sér eftirlauna útborgun í gulli og þeir fá næstu 30 ár til að vera til, áður en þeir eru já, sendir tilbaka og aflífaðir af sjálfum sér. Einn daginn lendir fyrrnefndi Joe akkúrat í því að horfast í augu við sjálfan sig 30 árum eldri (Bruce Willis) við endann á byssuhlaupinu, sendann til baka. Smávægilegt hik á Joe yngri kemur í veg fyrir skjótann dauða og eldri útgáfan af honum sjálfum sleppur.

Looper

Maður gæti haldið, eftir að hafa útlistað þessu, að allt sem eftir væri myndi vera fyrirsjáanlegt. En í Looper erum við að sjá eina af þeim frumlegri sci-fi myndum síðustu ára, ásamt t.d. Inception hans Cristopher Nolan.

Þá kemur maður aftur að tómarúminu innan með okkur. Í Looper verða til slæmar mannverur þegar þær hafa orðið fyrir miklum skorti af manngæsku og umhyggju. Sem er vitaskuld nokkuð eins í raunveruleika okkar allra. Við höfum flest okkar orðið fyrir missi, áfalli eða öðru slíku. Verið á botninum og vitað sára vel hvað myrkrið er, hvað það er erfitt að stíga aftur í sólina þegar svartnættið umlykur. En þau okkar sem hafa komið út úr slíkum aðstæðum vita það að langsterkasta aflið til að heila það sem brotið er, er kærleikur (ekki Kristni-JesúKristur kærleikur, heldur ást/umhyggja/samkennd = kærleikur).

Looper_02

Looper sýnir hversu sterk hringrás svona atburða getur verið, og kafar einstaklega vel ofaní hvað hver mannvera getur haft margar hliðar. En yfir öllu er sú tilfinning sterkust að við öll myndum berjast til þess síðasta fyrir þá sem við elskum, eða til að varðveita það góða sem við finnum. Í raun er þetta mynd sem æðislegt er að horfa oft á í gegnum árin, því í hvert skipti sem maður horfir á hana er möguleiki á að upplifa hana á annan hátt, að sjá nýja hlið á karakterunum sem í henni eru.

Looper er frumleg, einlæg, mannleg frásögn af fólki sem er að reyna að minnka heiminn sem það býr í, nógu smátt svo það geti tekist á við hann. En heimurinn leyfir fólki ekki að hjúfra sig út í horni og vera ósnert.

Eins og Fródó sjálfur lærði af sínu ævintýri í Hringadróttinssögu Tolkiens, þá geturðu ekki bara búist við því að fá að vera í sápukúlu heimkynna þinna og búist við því að vera látinn í friði af hlutum sem umturna veröld þinni. Það er alltaf spurning um hver þú reynist vera þegar þeir atburðir skella á þér. Muntu halda þinni lífsskoðun til hlítar, ríghalda í gamlar skoðanir og sannleika og neita að sjá nýjar hliðar á lífinu? Eða muntu meðtaka nýja sannleika, og gera þitt besta í að varðveita hið góða, hvað svo sem það gæti verið?

Looper_03

Fjórar stjörnur af fimm mögulegum, þessi kvikmynd er æðisleg viðbót í vísindaskáldsagnasögustaflann, og situr líka vel á stalli með myndum utan þess kvikmyndategundar (genre).

Það var til klippa af Brazil myndinni hans Terry Gilliam, ein útgáfa sem stúdóið lét gera, sem bar undirtitilinn „Love Conquers All Edition“, sem var útgáfan með glaða og góða endinum til að bæta upp fyrir hráslagalegu veröld myndarinnar. Terry Gilliam hataði þá útgáfu, og þótti klippan mun lakara en útgáfan hans Gilliams. Engu að síður held ég, eftir að hafa horft á Looper í annað sinn, að „Love Conquers All“ ætti alveg erindi í að vera þema myndarinnar. Eða að hluta til að minnsta kosti.

 

Höfundur er Benedikt Jóhannesson

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑