Bíó og TV

Birt þann 9. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Near Dark

Svartir sunnudagar munu sýna Near Dark klukkan 20 í kvöld í Bíó Paradís. Þetta er költ klassík frá 1987 og er önnur mynd hennar Kathryn Bigelow, sem var fyrst kvenna til þess að vinna Óskarsverðlaunin fyrir bestu leikstjórn árið 2009 fyrir The Hurt Locker. Hún hefur sérhæft sig í hasarmyndum og ættu flestir að kannast við Point Break (1991) og Strange Days (1995). Near Dark er þó nokkuð frábrugðin myndunum sem hún er mun þekktari fyrir að því leiti að myndin fjallar um vampírur og það vottar fyrir vestra í henni. Þessi mynd var samstarfsverkefni þeirra Eric Red sem er þekktastur fyrir að hafa skrifað The Hitcher (1986).

Caleb (Adrian Pasdar, Heroes) er ungur sveitamaður sem hittir hina fögru Mae (Jenny Wright) og fellur kylliflatur fyrir henni. Hann gefur henni far til vina sinna og biður um koss að launum. Í staðinn er hann bitinn í hálsinn og hún stingur af. Á leiðinni heim er Caleb brottnuminn af svokölluðum vinum Mae sem er í raun hálfgerð fjölskylda sem státar eingöngu af vampírum. Jesse (Lance Henriksen, Aliens) er leiðtoginn og kerla hans er Diamondback (Jenette Goldstein, Aliens), villingurinn Severen (Bill Paxton, Aliens) og strákurinn Homer (Joshua Miller). Þau gefa Caleb gálgafrest til þess að sanna að hann getið kallað sig einan af þeim og á meðan er faðir hans og systir að leita af honum. Caleb á núna tvær fjölskyldur, dagfara og næturfara, og það kemur að því að hann þurfi að velja um aðra hvora.

Near_Dark_01

Myndin er hrá, blóðug og laus við rómantísku vampíruna sem flestir þekkja hvort sem er gotnesku klassísku vampíruna eða væmnu nútíma vampíruna. Allt er einfalt í þessum heimi, eins og vestrinn, þar sem það voru vond glæpagengi á móti fógetanum. Þetta er ósköp svipað, nema bara með vampírum. Allar reglur um vampírur eru ekki til staðar nema sólarljósið, það er ekki verið að flækja hlutina með vígðu vatni, hvítlauki eða krossum.

Leikararnir standa fyrir sínu og það mætti segja að Bill Paxton steli senunni með sínu Suðurríkja slangri og kjafti. Myndin er frekar svört og smá húmor kemur í gegn, sérstaklega þegar kemur að löngu atriði sem gerist á einni afskekktri krá. Það eina sem mætti segja er að myndin missir kannski smá damp þegar nær dregur að lokum en þar sem myndin er ekki það löng er það fyrirgefið. Tónlistin stendur uppúr þar sem raftónlistarmennirnir úr Tangerine Dream sömdu tónlistina fyrir myndina, þrátt fyrir að það kemur ekkert á óvart fyrir þá sem þekkja vel til þeirra þá kemur þetta ótrúlega vel saman við myndina. Það var orðið frekar vinsælt að vera með raftónlist í kvikmyndum á níunda áratugnum sérstaklega þar sem það var mun ódýrara að fá einn mann eða hljómsveit til að semja tónlist en að taka upp tónlist með sinfóníuhljómsveit.

Near_Dark_02

Near Dark hefði hugsanlega orðið þekktari ef hún hefði ekki komið út á sama tíma og önnur fræg og stór vampírumynd, The Lost Boys. En myndin hefur smátt og smátt fengið stimpilinn á sig sem költ klassík og ber það nafn með rentu.

Um DVD útgáfuna

Near Dark er fáanleg á DVD og Blu-ray hvort sem er frá Bandaríkjunum eða Evrópu.

DVD útgáfan sem ég á er gefin út frá breska fyrirtækinu Optimum Releasing. Hún hafði verið áður til í Bandaríkjunum frá Anchor Bay og fengu Optimum menn réttinn til þess að gefa hana út í Bretlandi. Allt það helsta frá þeirri útgáfu var tekið og sett á þessa útgáfu.

Near_Dark_03

Myndgæðin eru býsna góð miðað við svona gamla mynd, kornótta filmuáferðin getur orðið fyrirferðamikil í sumum dökkum atriðum en það eru samt vel hægt að sjá smáatriði í nærmyndum. Eina sem ég get sett útá er að það hefur verið skerpt á myndinni og kemur það illa út á nokkrum stöðum í myndinni en sem betur fer er það ekki oft. Það er hægt að sjá smá leifar af breytingunni frá NTSC (bandaríska myndbandsstaðlinum) yfir í PAL (evrópska staðalinn) en ekkert sem ætti að stöðva mann frá því að kaupa þessa útgáfu.

Það eru þrír hljóð valmöguleikar, enska Dolby Digital tvíóma hljóðrás, Dolby Surround 5.1 og DTS Surround 5.1. Hljóðið er fínt og allt kemst til skila nema kannski einstakar setningar hér og þar, bakhátalarnir fá ekki mikið að gera og það er ekki skrítið enda er þetta gömul mynd. DTS er klárlega sigurvegarinn þar sem hún er með hærri hljóðstyrk og betri bassa. Dolby 5.1 er náttúrulega líflegri og bassameiri en upprunalega tvíóma hljóðrásin.

Near_Dark_05

Á fyrsta diskinum er myndin ásamt umtali með Kathryn Bigelow, leikstjóra myndarinnar. Hún kemur með ágæta punkta og sögur hér og þar en of mikið um langar þagnir þannig að það er ekki mikill missir ef maður myndi láta það nægja sér að horfa á viðtölin á seinni disknum. Living in Darkness inniheldur viðtöl við helstu leikarana, framleiðendur og leikstjórann og það er farið yfir víðan völl á þremur korterum. Það sem stendur uppúr eru sprell sögurnar frá Lance Henriksen og Bill Paxton þegar þeir fóru á stjá í búning og karakter. Það er eitt stutt atriði sem var ekki notað í myndinni með umtali frá leikstjóranum. Það hefði verið áhugavert að sjá þetta í myndinni fullunnið en bætir samt engu við myndina. Svo eru 20 ljósmyndir frá tökum myndarinnar og 1 mynd af plakatinu.

Þess má geta að það eru nýrri útgáfur til af myndinni á DVD með hulstri sem var augljóslega gert til þess að ná til áhorfenda Twilight myndanna. Víða á netinu má finna dóma um Blu-ray útgáfuna sem alls staðar hefur fengið slaka dóma vegna myndgæða. Það er oft notast við DNR (Digital Noise Reduction) þar sem reynt er að losna við ókyrrð á filmunni sem er bara náttúruleg áferð hennar. Í verstu tilfellunum líta manneskjur út eins og vaxgínur og öll dýpt er hrifsuð frá myndinni allt í nafni skýrrleikans.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑