Bíó og TV

Birt þann 21. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Dead Snow: Red vs. Dead

Dead Snow: Red vs. Dead er beint framhald af Dead Snow sem kom út árið 2009. Um er að ræða norska splattermynd í leikstjórn Tommy Wirkola. Með aðalhlutverk fara Vegar Hoel og Stig Frode Henriksen, sem voru báðir í fyrri myndinni, auk þess sem Martin Starr fer með áberandi hlutverk í myndinni, en hann er líklega hvað þekktastur fyrir að leika ofurnördið Bill í sjónvarpsþáttunum Freaks and Geeks. Til gamans má geta þá er íslenska fyrirtækið Saga Film einn af framleiðendum myndarinnar og var stór hluti hennar tekinn upp hér á landi síðastliðið sumar.

Dead Snow: Red vs. Dead byrjar þar sem Dead Snow endaði og byrjar með látum. Martin, leikinn af Vegar Hoel, er hundeltur af nasista zombíum og endar á sjúkrahúsi þar sem hann er grunaður um að hafa myrt vini sína. Nasista zombíarnir stefna í átt að norskum smábæ og hyggst Martin gera allt sem í sínu valdi stendur til að stöðva zombíana og hefna fyrir morðin á vinum sínum. Til þess þarf hann aðstoð og fær uppvakningavarnarhópinn Zombie Squad með sér í lið með Daniel í forrystu. Ekki bara það, heldur hefur Martin öðlast nýja krafta með nýrri hendi sem var saumuð á hann á sjúkrahúsinu – en það er bara verst fyrir Martin að höndin er með sjálfstæðan vilja!

Dead Snow_2

Þrátt fyrir að myndin sé beint framhald af Dead Snow er stemningin í Dead Snow: Red vs. Dead allt önnur og myndirnar tvær varla sambærilegar. Fyrri myndin nær að byggja upp nokkuð drungalega stemningu á köflum og nær að tvinna saman hefðbundna hryllingsmynd við splatterinn. Nýja myndin setur aftur fókusinn fyrst og fremst á splatterinn þar sem allt gengur út á blóð og viðbjóð í kómísku samhengi. Ekki er sjálfgefið að þeir sem fíluðu fyrstu myndina eigi eftir að fíla númer tvö. Ef fyrsta myndin er rokk þá er seinni myndin dauðarokk. Ef þú ert með viðkvæman maga og þykir ekkert fyndið við að nota þarma náungans sem bensíndælu eða hugsanlegar afleiðingar þess að nota munn-við-munn aðferðina á zombí að þá ættiru að sleppa því að sjá þessa mynd. Við hin böðum okkur í þessum hundruðum lítra af gerviblóði og og hlægjum illkvitnislega. Múhahaha!

Myndin er ekki aðeins blóðugri, heldur líka mun steiktari en sú fyrri og minnir Dead Snow: Red vs. Dead svolítið á splatterinn í Bad Taste og Braindead á köflum. Myndin býður upp á nokkuð óhefðbundna uppskrift af zombíum sem fylgja ekki settum zombíreglum sem flestir kannast við. Til að mynda geta nasista zombíarnir talað, hugsað og sumir þeirra eru jafnvel með sérstaka ofurkrafta. Það er varla hægt að bera splattermyndir á borð við Dead Snow: Red vs. Dead við hefbundnar kvikmyndir. Annað hvort fílaru splattermyndir eða ekki. Á heildina litið er myndin vel gerð miðað við splattermynd en mér þótti þó einstaka sinnum viðbjóðurinn fara aðeins yfir strikið – en það má svosem deila um hvort það sé kostur eða ókostur við splattermynd þar sem flest allt gengur út á viðbjóðinn og að sjokkera. Ef þú ert tilbúin/n að líta ekki of alvarlega á myndina, hlægja yfir atriðum sem ganga svo langt yfir strikið að það hálfa væri nóg og þolir súrealískt innyflaklám – þá er þetta klárlega mynd fyrir þig.

Dead_Snow_2_01

Dead Snow: Red vs. Dead er trúlega ein af þessum myndum sem á eftir að fá mjög blendna dóma þar sem þeir sem þola ekki „óþarfa ofbeldi“ í kvikmyndum og skilja ekki splattermyndir eiga eftir að rakka hana niður á meðan hinir splatter aðdáendurnir eiga frekar eftir að skemmta sér konunglega. Sagan er steikt, brandararnir súrealískir, splatstick húmorinn í góðum gír og persónurnar stórlega ýktar og ótrúverðugar – allt þetta gerir eina góða splattermynd!

Myndina á eftir að sjokkera fleiri en sú fyrri, enda er hún ansi gróf miðað við mynd sem er sýnd í hefðbundnu kvikmyndahúsi. Dead Snow: Red vs. Dead býður upp á meiri splatter, hasar og kjánaskap en fyrri myndin. Það er langt síðan að jafn vel heppnaður splatter hefur sést á hvíta tjaldinu. Ég mæli eindregið með því að horfa á fyrstu myndina áður en þú horfir á þessa.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑