Greinar

Birt þann 9. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjatölvan sem breytti heiminum

Árið 2012 ákvað Andre frá Frakklandi að selja tölvuleikjasafnið sitt á uppboðsvefnum eBay. Þessi ákvörðun væri eflaust ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að hæsta boðið sem kom í leikjasafnið var 1,2 milljónir Bandaríkjadala, sem gera í kringum 144 milljónir íslenskra króna. Safnið var heldur ekkert venjulegt safn tölvuleikja. Það samanstóð af fágætum leikjum, meðal annars fyrir leikjatölvuna Nintendo Entertainment System, betur þekkta sem Nintendo NES. Allir leikirnir voru í upprunalegum pakkningum og óopnaðir; sem sagt gull í augum margra leikjanörda og -safnara.

Tölvuleikjasafnarinn Andre á japönsku hugviti mikið að þakka. Hefði japanska stórfyrirtækið Nintendo, sem hafði framleitt spilastokka í hartnær 100 ár, ekki sett á markað leikjatölvu á sínum tíma hefði sagan af Andre eflaust ekki ratað í heimspressuna mörgum árum síðar. Árið 1983 framleiddi Nintendo leikjatölvuna Family computer, sem er betur þekkt sem Famicom, og áhersla var lögð á að tölvan ætti að vera fyrir alla fjölskylduna. Þegar Famicom var markaðssett í Bandaríkjunum árið 1985 fékk hún síðan nafnið Nintendo NES og átti eftir að endurvekja áhuga fólks á leikjatölvum og þannig bjarga leikjaiðnaðinum, sem átti á þessum tíma erfitt uppdráttar.

Tölva verður til

Eins og svo margir aðrir tölvuleikjaframleiðendur á 9. áratugnum einbeitti Nintendo sér að gerð spilakassa og smærri lófatölva. Fyrirtækið á til dæmis heiðurinn af Donkey Kong, sem er einn vinsælasti tölvuleikur allra tíma. Árið 1983 varð hrun á leikjatölvu- og tölvuleikjamarkaðnum í Bandaríkjunum. Það átti ekki við um Japan en Japanir, sem oft hafa þótt framúrstefnulegir og tæknivæddir, voru miklir tölvuleikjaspilarar og því kemur ekki á óvart að vinsælasta leikjatölva allra tíma hafi komið þaðan.

famicom

Famicom frá Nintendo kom út í Japan. Henni var svo breytt fyrir Bandaríkjamarkað.

Stærsta nýbreytnin sem fylgdi Famicom var hönnun fjarstýringar. Í leikjaheiminum hafði stýripinninn verið allsráðandi en hann þótti ekki mjög meðfærilegur í höndum spilara. Einn fremsti verkfræðingur Nintendo, Gumpei Yokoi, sá við þessu og hannaði plús-takkann, sem var vinstra megin á fjarstýringunni og kom í stað stýripinna, en auk þess voru tveir takkar hægra megin á fjarstýringunni. Tölvan var enn fremur afar öflug með 8 bita örgjörva og grafíkin með því besta sem þekktist á þeim tíma.

Það gekk ekki snurðulaust fyrir sig að koma Famicom fyrst á markað í Japan. Galli í hönnun tölvuflögu vélarinnar leiddi til þess að forstjóri Nintendo, Hiroshi Yamauchi, ákvað að innkalla allar tölvurnar og skipta út gölluðu flögunum. Hann taldi að betra væri að eyða tíma og peningum í það en að skaða ímynd fyrirtækisins. Þessi ákvörðun hefur vafalaust margborgað sig því þrátt fyrir þessa hnökra í upphafi varð Famicom gríðarlega vinsæl í heimalandinu og eftir einungis tvo mánuði í sölu hafði yfir hálf milljón eintaka selst.

Nintendo NES slær í gegn

Eftir velgengni Famicom í Japan litu stjórnendur Nintendo til Bandaríkjanna og sáu þar hugsanlegan markað fyrir tölvuna. Gallinn var sá að Bandaríkjamenn virtust ekki hafa neinn áhuga á leikjatölvum eða tölvuleikjum lengur. Talið var að tölvuleikjaiðnaðurinn í Bandaríkjunum væri liðinn undir lok þar sem stórfyrirtæki í geiranum voru mörg hver á barmi gjaldþrots. Árið 1983 ætlaði Nintendo að hefja samstarf með leikjatölvuframleiðandanum Atari, sem hafði barist í bökkum fjárhagslega, en fyrirtækið átti að sjá um sölu á Nintendo NES í Bandaríkjunum. Þetta samstarf gekk þó ekki upp og ekkert varð af sölu á Nintendo NES fyrr en tveimur árum síðar þegar stjórnendur Nintendo ákváðu sjálfir að dreifa vélinni og sjá um markaðssetningu.

NES

Sagan af því hvernig Nintendo NES náði loks fótfestu í Bandaríkjunum er bæði löng og flókin frásögn af mönnum með stórar hugmyndir, klækjabrögð að vopni, gott markaðsvit og mikinn kjark. Í þessu samhengi er hægt að nefna tvö dæmi. Fyrra dæmið er tilkoma byssunnar sem kölluð var „The Zapper“ og fylgdi með tölvunni svo hægt væri að spila tölvuleikinn Duck Hunt. Byssan vakti áhuga Bandaríkjamanna á tölvunni enn frekar. Seinna dæmið er sú djarfa hugmynd að lofa heildsölum endurgreiðslu ef tölvan myndi ekki seljast. Þessi markaðshugmynd féll ekki í kramið hjá mörgum innan raða Nintendo en borgaði sig á endanum.

Góða sölu Nintendo-leikjatölvunar má líklega rekja til fjölbreytts úrvals leikja fyrir vélina. Þar ber sérstaklega að nefna Super Mario Bros. sem breytti því hvernig fólk hugsaði um tölvuleiki. Aðalsöguhetjan, Mario, var ekki föst í afmörkuðu rými eins og þekktist í mörgum öðrum tölvuleikjum á þessum tíma, t.d. í Donkey Kong, heldur gat ferðast um ævintýraheim fullan af földum fjársjóðum og sveppum og að sjálfsögðu var þar prinsessa sem þurfti að bjarga.

kristinnKristinn Ólafur Smárason sagnfræðingur er áhugamaður um Famicom og Nintendo NES og hefur safnað leikjum í tölvurnar í gegnum tíðina. Hann segir að stærsti munurinn á Famicom og Nintendo NES sé sá að Bandaríkjamenn vildu veglegt heimilistæki og því var útliti tölvunnar breytt. Tölvan sjálf var gerð meiri um sig og einnig voru leikjahylkin sjálf stækkuð og urðu líkari VHS myndbandsspólum. „Tölvan var gefin út á öðrum forsendum í Bandaríkjunum en í Japan. Hún gerði miklu meira í Japan. Þú gast fengið mótald í Famicom og þannig var hægt að tengjast verðbréfamarkaðnum og veðbönkum fyrir veðreiðar. Þú gast líka forritað þína eigin leiki eða smáforrit. Nintendo NES var ekki svona, heldur var hún einungis leikjatölva og seld sem slík, þó svo að hún hafi í raun verið sama tölvan,“ segir Kristinn. Hann bendir einnig á að leikjunum, sem gefnir voru út fyrir tölvuna í Bandaríkjunum, var breytt. „Það var meiri ritskoðun í Bandaríkjunum og því var ekki vel liðið ef of mikið af ofbeldi eða nekt var að finna í tölvuleikjunum, eitthvað sem Japanir kipptu sér ekki upp við.“

Nintendo var fyrsta fyrirtækið á markaðnum sem leyfði þriðja aðila að framleiða tölvuleiki fyrir leikjatölvur. Talið er að þessi ákvörðun hafi bjargað tölvuleikjaiðnaðnum í Bandaríkjunum því eftir því sem leikjatölvan varð vinsælli vaknaði eftirspurn eftir fleiri leikjum. Þetta viðskiptalíkan Nintendo átti síðan eftir að festa sig í sessi og er venja í dag. Salan á Nintendo NES gekk með eindæmum vel í hinum vestræna heimi en til marks um stöðu hennar í sögulegu samhengi var hún útnefnd besta leikjatölva allra tíma árið 2009 af hinu þekkta tæknitímariti IGN (Imagine Games Network).

Nintendo og Ísland

Gametivi_Sverrir_OlafurSegja má að hér á Íslandi hafi orðið Nintendo-æði. Í frétt sem birtist 4. janúar 1991 í Pressunni segir: „Nintendo-leikjatölvurnar virðast nú hasla sér völl á íslenskum heimilum. Hátt á þriðja þúsund slíkar voru í jólapökkum íslenskra barna og unglinga um jólin. Leikir þessir slá því ekki út sölumetið á einu einstöku tæki, fótanuddtækinu fræga, sem seldist til jólagjafa um árið, í meira en tólf þúsund eintökum.“ Þó að tölvan gæti ekki keppt við fótanuddtækið sló hún samt sem áður í gegn.

Ólafur Þór Jóelsson og Sverrir Bergmann sjá um sjónvarpsþáttinn Game Tíví sem fjallar um tölvur og tölvuleiki. Þeir muna báðir vel eftir því þegar Nintendo kom á markað hér á landi. „Ég átti svona Famicom tölvu, keypti hana í Rafsjá á Króknum“, segir Sverrir hlæjandi og bætir við að þeir hafi flutt inn alvöru „stöff“. Ólafur man vel eftir því þegar Hljómco seldi tölvurnar. „Ég man eftir því að maður fór þarna niður eftir og fylgdist með þessu. Þetta var líka meiri atburður að versla tölvuleiki á þessum tíma. Að fara í Hljómco og skoða eða gera eitthvað. Maður var að fara daglega í þessar verslanir og skoða eitthvað. Þetta var eins og jól alla daga,“ segir Ólafur.

Þegar Nintendo NES kom á markaðinn hér á landi hafði Famicom-tölvan fest sig í sessi sem ódýr valkostur og leikjaunnendur gátu spilað NES-leiki á Famicom með einföldu breytistykki. Gallinn var þó sá að Famicom-tölvurnar sem voru seldar hér á landi voru eftirlíkingar af upprunalegu tölvunni og kallaðar „Famiklón“, þó að rétta nafn tölvunnar hafi verið Family Game. „Hljómco sem flutti inn Nintendo NES drullaði yfir Alefli sem seldi Famiklónin. Þessar tölvur voru eiginlega alveg eins í útliti en Famiklónin voru hvít og grá,“ segir Kristinn og bendir jafnframt á að Famicom sé einhver mest svikna vara allra tíma. Nokkur stórfyrirtæki framleiddu tölvurnar án leyfa frá Nintendo, sem leiddi til þess að fyrirtækið höfðaði mál. Í greininni í Pressunni segir einnig: „Hljómco mun ekki vilja una því að fyrirtækið Alefli kaupi inn og selji á markaði hér það sem þeir telja vera eftirlíkingar af leikjatölvunni. Málaferli vegna þessa eru á döfinni víðar um heiminn. Hljómco-menn segja að eftirlíkingin svari engan veginn þeim kröfum sem gera verði til tækjanna, kerfið sé ekki nógu öflugt fyrir Nintendo-leikina.“ Þó virðist sem Hljómco-menn hafi haft rangt fyrir sér því eftirlíkingarnar voru með eindæmum góðar og í raun var ekki vandkvæðum bundið að spila upprunalega Nintendo-leiki á Famiklónum.

Áhrif tölvunnar

Skiptar skoðanir eru um hvað varð til þess að Nintendo-leikjatölvurnar urðu svona vinsælar. Voru það leikirnir sem Nintendo framleiddi eða tölvan sjálf? Kristinn telur að tölvan sem slík sé orsök vinsældanna. „Ég held að tölvan hafi bara verið góð tölva, öflug fyrir sinn tíma en hinar voru ekki svona öflugar. Ég held að enginn einn leikur hafi spilað inn í,“ segir Kristinn. Ólafur segir þó að leikirnir hafi spilað stórt hlutverk. ,,Nintendo eru snillingar í því að búa til karaktera sem allir elska og það hefur gert mikið fyrir Nintendo. Ég held að það hafi verið lykilatriði fyrir þá til að halda lífi að hafa verið með sína eigin leiki,“ segir Ólafur og bætir því við að áhrif tölvunnar séu gríðarleg. „Þeir komu af stað byltingu sem við erum ennþá að sjá lifandi í dag. Ég held að byltingin hafi byrjað þarna og hún lifir enn. Þetta hafði áhrif á hvað menn voru að gera og hvernig menn höguðu sér.”

Nintendo eru snillingar í því að búa til karaktera sem allir elska og það hefur gert mikið fyrir Nintendo. Ég held að það hafi verið lykilatriði fyrir þá til að halda lífi að hafa verið með sína eigin leiki,

Þó að leikjatölva sem slík sé gott tæki er hún aldrei ein á báti því tölvuleikirnir spila stórt hlutverk. Ef einhver einn tölvuleikur er öðrum fremur ábyrgur fyrir velgengni Nintendo NES má leiða að því líkur að Mario Bros. sé sá leikur. Hann er líklega þekktasti tölvuleikur allra tíma og persónurnar lifa góðu lífi í menningarvitund okkar. Líklegt verður að telja að Ítalinn góðkunni, Mario, hafi átt stóran þátt í því að auka vinsældir Nintendo NES. Þótt ekki þekki allir Famicom eða Nintendo NES vita flestir hver Mario er, enda hefur hann fylgt tölvuleikjum Nintendo um langt skeið og enn í dag má sjá honum bregða fyrir í leikjum framleiddum af fyrirtækinu.

Sem dæmi um það hve áhrifa tölvuleikjanna frá Nintendo gætir víða má nefna að í Washington-fylki í Bandaríkjunum er starfrækt sinfóníuhljómsveit, Washington Metropolitan Gamer Symphony Orchestra, sem leikur einungis lög úr tölvuleikjum og þá sérstaklega lög úr Nintendo-leikjum. Auk þess er eitt þekktasta tölvuleikjatónskáld sögunnar Japaninn Koji Kondo, sem á t.d. heiðurinn af stefunum í Super Mario Bros. og The Legend of Zelda.

Samkeppnin á tölvuleikjamarkaðnum hefur harðnað og margt hefur breyst í hönnun og tækni leikjatölva dagsins í dag. Vinsældir Nintendo eru ennþá miklar þó að stórir samkeppnisaðilar eins og Sony, sem framleiðir leikjatölvurnar Playstation, og Microsoft, sem framleiðir Xbox, ráði nú miklu á markaðnum. Stóru risarnir eiga Nintendo mikið að þakka enda bjargaði litla tölvan frá Japan leikjaiðnaðnum. Já, og fyrir vikið varð tölvuleikjasafn franska tölvuleikjasafnarans Andre mun verðmætara.

Þessi grein birtist upphaflega í Skástrik, 2013
Myndir: Wikimedia Commons og GameTíví á Facebook

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑