Bíó og TV

Birt þann 27. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Black Christmas

Í gær var Black Christmas, kanadísk hrollvekja frá 1974, sýnd í Bíó Paradís. Í tilefni þess fór einn penni Nörd Norðursins yfir DVD safnið sitt og dustaði rykið af þessum gullmola sem þessi mynd er.

Eins og titill myndarinnar gefur til kynna þá gerist hún í jólafríinu í einni heimavist systrafélagsins Pi Kappa Sigma. Það stefnir í svört jól hjá þeim sem ekki fara heim til fjölskyldna sinna um jólin því óboðinn gestur hefur læðst upp á háaloft og ekki nóg með það þá hafa stúlkurnar fengið ansi gróf símtöl í dágóðan tíma sem síversna þegar á líður.

Sagan er ekki flóknari en þetta, þrátt fyrir það þá eru stúlkurnar og aðstæður þeirra ekki einfaldar. Flestar hafa sinn djöful að draga, Jess (Olivia Hussey) þarf að segja kærasta sínum (Keir Dullea) að hún sé ólétt, móður hennar kjaftforu Barb (Margot Kidder) stingur af með nýjum kalli og hin viðkvæma Clare (Lynne Griffin) þarf að fela kærasta sinn frá íhaldssinnuðu foreldrum sínum.

Þessi mynd fór ótroðnar slóðir og manni hálfpartinn blöskrar að hún skuli ekki vera betur þekkt nú til dags. Leikstjóri myndarinnar, Bob Clark, vildi reyna að gera hryllingsmynd þar sem lítið sem ekkert sæist í illmennið og ennþá minna væri vitað um hann. Ekki nóg með það þá er lítið sem ekkert af blóðsúthellingum í myndinni og í staðinn er myndatakan og hljóðið frekar notuð til að byggja upp spennuna. Símtölin sem stúlkurnar fá eru vægast sagt hrollvekjandi og tónlistin er mjög óhefðbundin en hún stendur uppi af drunum frá píanóstrengjum. Black Christmas er talin vera fyrsta sanna slægjumyndin sem einnig átti óbeinan þátt bæði í gerð Halloween og uppbyggingu slægjumyndanna.

Þó svo að þetta sé hryllingsmynd eru þónokkur atriði sem vekja kátínu inná milli til þess að slaka á spennunni. Enda er leikstjórinn meira þekktur fyrir Porky’s gamanmyndirnar sem hann gerði á níunda áratugnum. Margir leikstjórar byrja í hryllingsmyndum enda er auðveldara að fjármagna þær og Bob Clark skammaðist sín ekkert fyrir það. Rúmum áratugi síðar kom hann með aðra jólaklassík, A Christmas Story, nema hvað að það var gamanmynd fyrir alla fjölskylduna.

 

Um DVD útgáfurnar

Ég ætla að fara lauslega yfir diskana tvo sem ég á af myndinni.

Black Christmas DVD

Eldri DVD diskurinn er titlaður sem Collector’s Edition og er frá Critical Mass Releasing og er læstur á svæði 1. Myndgæðin eru ágæt miðað við hversu gömul myndin er en það að myndin er ekki endurkóðuð fyrir breiðtjaldssjónvörp og samtvinnuð ofan á það setur strik í reikninginn. Þetta verður oft sjáanlegt ef eitthvað hreyfist hratt og/eða myndin færist hratt, þá birtast sumar útlínur eftir á og verður að hálfgerðri draugamynd. Það er hægt að velja um tvær enskar hljóðrásir, hins vegar tvíóma 2.0 Dolby Digital og einóma 2.0 Dolby Digital, og eina franska einóma 2.0 Dolby Digital. Helsti munurinn var hljóðstyrkurinn, upprunalega einóma hljóðrásin var mun hærri. Stökkið frá einóma til tvíóma hljómaði ekki mikið í mínum eyrum. Til gamans bar ég saman frönsku hljóðrásina við ensku og komst að því að grófu símtölin hljómuðu bara hlægilega og eitthvað sem ég gæti aldrei tekið alvarlega hvað þá ógnvænlega.

Aukaefnið er ekki af verri endanum, það sem vert að nefna eru tveir yfirlestrar og viðtöl við fólkið sem kom að gerð myndarinnar. Eini gallinn við viðtölin er hljóðið en það var illa klippt saman, hljóðið var annað hvort of hátt eða lágt, ef ekki það þá voru of mikil læti í bakgrunninum og þegar brot úr myndinni voru spiluð var ekkert verið að lækka eða slökkva á hljóðinu í myndinni. Margt áhugavert að heyra þarna en maður þarf að vera með puttann á hækka eða lækka takkanum á fjarstýringunni sem er ekki skemmtilegt.

Black Christmas

Myndin til vinstri er tekin af gamla disknum og myndin til hægri af nýrri útgáfunni.

Nýrri diskurinn er titlaður sem Special Edition og er frá Somerville House. Varðandi mynd-og hljóðgæðin þá eru þau í rétta átt en þegar kemur að aukaefninu er það önnur saga. Loksins er mynd endurkóðuð fyrir breiðtjaldssjónvörp en hún ennþá samtvinnuð. Sem betur fer lítur samtvinnunin ekki eins illa út á þessum diski. Myndin virkar skarpari og hún er bjartari sem hefur áhrif á litinn. Ég er á báðum áttum með litina frá einni senu til annarrar en þrátt fyrir það eru myndgæðin mun betri. Það er hægt að velja sömu hljóðmöguleika og á honum en í staðinn fyrir tvíóma útgáfuna þá er 5.1 Dolby Digital Surround. Sú hljóðrás er lægri í hljóðstyrk en upprunalega en hérna er greinlega hægt að heyra mun á hljóðblöndunni. Sum hljóð eru mun lægri en þau voru upprunalega og jafnvel sem voru ekki áður. Flest hljóðin eins og tal frá fólki eru öll í miðju hátalaranum en tónlist og önnur hljóð fá að njóta sín í fram-og aftur hátölurunum. Það er ágætlega að þessu staðið og mér heyrist að upprunalega hljóðrásin hafi verið hreinsuð til svo það er minna um eitthvað hiss sem var ekki það áberandi á hinni útgáfunni.

Það er ekkert aukaefni endurtekið frá fyrri útgáfunni sem er mikil skömm en við fáum viðtöl við fólk sem kom að gerð myndarinnar og sumt af því fólki var ekki á fyrri útgáfunni sem er ákveðin sárabót. Það er minna farið í smáatriði og meira að auglýsa hversu mikilvæg hún er í sögu hryllingsmynda. Ef það væri allt og sumt þá hefði ég ekki verið ánægður með aukaefnið, en það er að finna 3 óklippt viðtöl sem gefa manni meiri innsýn í fólkið sjálft heldur en stuttu brotin í því sem var klippt saman. Það síðasta sem vert er að nefna er spurt og svarað eftir eina sýningu á myndinni í kvikmyndahúsi í Kaliforníu árið 2004.

Black Christmas

Eldri útgáfan (til vinstri) vs. nýrri útgáfan (til hægri).

Það skiptir ekki máli hvora útgáfuna þú sérð til að heyra söguna frá Bob Clark um hvort John Carpenter hyggðist gera framhald af Black Christmas og hvað myndi hann gera ef svo yrði. Clark kvaðst ekki hafa áhuga á framhaldi en sagði honum hvað hann myndi gera. Clark þvertekur fyrir það að hann hafi stolið eða hermt eftir sér…ja…nema kannski titlinum.

Kvikmyndin er til á Blu-ray og er alveg eins og nýrri diskurinn nema hvað náttúrulega ekki samtvinnuð og því tilvalið að taka hann ef maður hefur áhyggjur af myndgæðum. Það eru hins vegar skiptar skoðanir á netinu varðandi myndgæðin. Hvað sem því líður þá eru þau samt mun betri en DVD diskarnir.

Ég hef mjög gaman að skoða mismuninn á DVD og Blu-ray diskum, hvort sem það snýst um aukaefnið eða mynd-og hljóðgæðin. Það eru tvær síður sem ég skoða oft sjálfur og hérna eru hlekkir sem benda á Black Christmas: www.dvdcompare.net/comparisons/film.php?fid=3461 og og www.dvdbeaver.com/film2/DVDReviews27/black_christmas.htm.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑