Fréttir

Birt þann 16. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Elko með GTA V kvöldopnun 16. september

Árið 1997 kom fyrsti Grand Theft Auto leikurinn út í tvívídd. Leikurinn byggði á því, eins og nafnið gefur til kynna, að stela bílum. Síðan þá hafa komið út í seríunni 10 leikir og  4 aukapakkar. Á þessum tíma hefur leikjaserían þróast mjög mikið. Nú eru leikirnir komnir í þrívítt opið umhverfi og sameina þeir margar gerðir af leikjastílum s.s. bílaleiki, skotleiki, hlutverkaleiki og jafnvel ævintýraleiki. Fram að deginum í dag hefur GTA serían selst í yfir 125 milljón eintökum.

Þegar seinasti Grand Theft Auto kom út á Playstation, „sá fjórði í röðinni“, þá var það stærsta séropnun á verslun vegna einstakrar vöru í sögu Íslands. Árið 2008 lögðu hátt í 2500 manns leið sína í ELKO Skeifuna vegna þessarar séropnun. Mikið var um að vera á svæðinu m.a. tjald með rapptónleikum og veitingar fyrir svanga leikjaspilara. Salan á leiknum hófst kl. 24.00 og sló öll met fyrr og síðar.

Þann 16.september mun nýr GTA leikur loksins koma út, sá fimmti í röðinni. Margir leikglaðir spilarar hafa beðið óþreyjufullir eftir þessum leik sem nú þegar hefur slegið öll forsölumet erlendis.

Leikurinn fjallar um líf þriggja einstaklinga, þeirra Michael, Trevor og Franklin. Þeir eru eins mismunandi og þeir eru margir. Michael er moldríkur bankaræningi sem er undir eftirliti sálfræðinga enda finnst honum mjög erfitt að sætta sig við óspennandi daglegt líf auðugs fjölskylduföðurs. Trevor er rauðhnakki, alkahólisti, flugmaður og geðsjúklingur sem einnig sækir sálfræðiaðstoð vikulega. Úr undirheimum Los Santos borgar kemur svo Franklin, með eitt takmark í lífinu: að eignast peninga! Þeir eiga þó eitt sameiginlegt og það er fíknin í spennuna sem bankarán færa þeim. Saman fara þeir  með leikmenn í gegnum stræti Los Santos, í næsta kafla Grand Theft Auto sögunnar.

ELKO mun ekki fara varhluta af þessum tímamótum í leikjaheimum og hefur því ákveðið að halda sérstaka kvöldopnun mánudaginn 16.september þegar leikurinn kemur út. Verslun ELKO í Skógarlind mun hafa sérstaka kvöldopnun frá kl. 19.00 með tilboðum, veitingum og drykkjum. Spilarar geta prófað leikinn og myndað skemmtilega stemningu áður en salan hefst á leiknum kl. 22.00.

ELKO býst við metmætingu á svæðið sem fara mun fram úr öllum séropnunum hingað til. Gera má ráð fyrir að hátt í 3000 manns mæti í ELKO Lindir um kvöldið.

Eins og við hjá Nörd Norðursins höfum áður greint frá verður Gamestöðin einnig með GTA V kvöldopnun á sama tíma þar sem Erpur og Mc Gauti munu skemmta.

– Fréttatilkynning frá ELKO
Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑