Bækur

Birt þann 14. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: The Stand eftir Stephen King

Þegar ég lagði upp með að endurlesa eldri bækur Stephen King þá bjóst ég við lofgerð á lofgerð ofan enda eru bækurnar nær allar meistarastykki í huga táningsútgáfunnar af mér. The Stand hefur yfirleitt verið ofarlega í mínum huga þegar umræðuefnið er bestu bækur allra tíma. Þangað til núna.

Þetta er ein af lengstu bókum King og mín önnur mistök (þau fyrstu voru greinilega að lesa hana aftur og skemma goðsögnina) voru að lesa lengri útgáfuna sem var gefin út áratugi eftir þá fyrri. Þeir sem hafa lesið On Writing vita að King hvetur rithöfunda til þess að skera niður samkvæmt „formúlu“ sem hann fékk eitt sinn í neitunarbréfi: „Not bad, but PUFFY. You need to revise for length. Formula: 2nd Draft = 1st Draft – 10%. Good luck.“. Þess vegna kemur það dálítið spánskt fyrir sjónir að hann hafi verið fenginn til að setja aftur inn síður sem hann hafði eytt til að byggja á vinsældum upprunalegu útgáfunnar. Lengri útgáfan var líka látin gerast áratugi seinna en sú fyrri (sem vekur upp þá spurningu, hvað ef sagan hefði átt sér stað á okkar tæknivædda tíma? Eitthvað í líkingu við hina vanmetnu Cell?).

Atburðir bókarinnar eiga sér stað eftir að nær allt mannkynið hefur verið þurrkað út (99.4%) vegna manngerðar, banvænnar flensu sem kallast „Captain Trips“. Eftirlifendur safnast saman í tvær fylkingar fyrir tilstuðlan tveggja áhrifamikilla leiðtoga; Móðir Abigail og Randall Flagg (sem birtist fyrst hér en er í mörgum S.K. bókum). Móðir Abigail er yfir hundrað ára gömul, heittrúuð kona sem býr yfir vægum yfirnáttúrulegum hæfileikum sem er líkast til „the Shine“, sami eiginleiki og Danny Torrance hafði í The Shining. Randall Flagg er dularfullur flækingur sem virðist hafa þann eiginleika að vera á mörgum stöðum í einu og býr yfir kyngimögnuðum dimmum krafti. Það er því greinilegt að eftirlifendur skiptast í „vondu“ og „góðu“ hliðina og að lokum kemur að uppgjöri milli þessara tveggja fylkinga.

Þar sem bókin er margra áratuga gömul þá ætla ég að leyfa mér minniháttar spilla. Ef þú vilt lesa bókina hættu þá að lesa hér.

The StandStephen King skapar mjög eftirminnilegar persónur í bókinni og þetta er aðalstyrkur bókarinnar. Fyrri hlutinn er frábær að þessu leyti. Trashcan Man, Harold Lauder og að sjálfsögðu Randall Flagg eru persónur sem líða manni seint úr minni. Það er ekki tilviljun að ég nefni þá „vondu“ því að þeir eru mun athyglisverðari bæði hvað varðar persónuleika og bakgrunn (eins og vill gerast). Ég hef áður gagnrýnt Stephen King fyrir að hafa ekki nægileg blæbrigði í persónusköpun; iðulega er „vondi kallinn“ uppfullur af öfund, biturleika, drápsfíkn og algerlega laus við nokkra meðaumkun en „góði kallinn“ er fórnfús, hugrakkur og vinur vina sinna. Mér finnst vanta fleiri grá svæði en í flestum tilfellum sætti ég mig við það því að Stephen King skrifar í raun og veru hryllings-ævintýri svona eins og geðsjúkur Grimm-bróðir (nú er ég að tala um fyrri bækur S.K. því að þróunin hefur verið frá ævintýrum í hversdaglegri umgjörð með smá yfirnáttúrulegu kryddi sb. 11/22/63).

Þurrasti hluti bókarinnar er samfélagsuppbyggingin hjá þeim góðu og pólitíkin sem því fylgir. Alltof langur tími fór í þann hluta ásamt því að of margar persónur voru skapaðar enda játaði King að hafa lent í miklum vandræðum með að skrifa sig áfram. Á endanum ákvað hann að losa sig við nokkrar aðalpersónur í sprengingu en hann hefur sagt í gríni að sú sprenging hafi bjargað bókinni.

Fróðlegt er að bera saman samfélögin tvö; Flagg byggði upp þjóðfélag með ótta og hafði nokkra aðstoðarmenn sem hann treysti en drap þá sem fóru ekki eftir reglum. Eflaust má draga einhverjar hliðstæður við uppgang Hitlers enda var áhersla lögð á að koma sér upp vopnum og styrkja herinn. Samstaða var samt talsverð hjá þeim vondu hvort sem er vegna hræðslu við Flagg eða samkenndar vegna þess að hafa verið undir í  þjóðfélaginu fyrir pláguna.

Hinir góðu lögðu mikla áherslu á lýðræðislega hætti og héldu fundi þar sem allir gátu látið í sér heyra. Allt lítur vel út á yfirborðinu en undir niðri kraumar gremja og eitthvað er um pólitísk klækjabrögð.

The Stand átti að vera óður King til Hringadróttinssögu en ólíkt henni þá var ferðalagið sjálft á fund Flaggs hálf – „anti-climactic“ svo ég fái að sletta smá. Meðan föruneyti Fróða berst við alls konar skrímsli þá nær aðalhetjan, Stu Redman, að brjóta á sér fótinn, ekki í bardaga við hina illu aðstoðarmenn Flaggs, heldur við að komast niður brekku. Hann biður hina um að halda áfram án sín („go on without me!“) og það er enginn Samwise Gamgee til að halda á honum. Núna er ég dálítið ósanngjarn því að eitt meginþemað í The Stand er trúin og þarna er Guð bókarinnar að hlífa Stu frá örlögum hinna. Spurningin „Ef það er Guð, af hverju lætur hann svona hræðilega atburði gerast?“ hefur alltaf verið Stephen King hugleikin og sjaldan eins bersýnilega og í þessari bók.

Spurningin „Ef það er Guð, af hverju lætur hann svona hræðilega atburði gerast?“ hefur alltaf verið Stephen King hugleikin og sjaldan eins bersýnilega og í þessari bók.

Endalok The Stand minna mann meira á Gamla testamentið frekar en Hringadróttinssögu. Móðir Abigail er í hlutverki spámannsins sem skapar nýja þjóð og íbúarnir treysta henni þó að þeir trúi ekki endilega að vilji Guðs sé að baki. King er samt háll sem áll og þó að hann sé sjálfur trúaður þá fær maður aldrei staðfestingu á að Guð sé að toga í spottana í The Stand og ef svo er þá er þetta virkilega grimmur Guð sem lætur fólk þjást og deyja að ástæðulausu (já, ég veit hvað sum ykkar, þ.á.m. ég, eru að hugsa en núna erum við bara að skoða heim bókarinnar). Ef það er  ákveðinn boðskapur þarna þá verður hver að meta það fyrir sig. Í þessu samhengi er athyglisvert að skoða t.d. hversu erfitt það er fyrir Redman að komast heim („Týndi sonurinn“?) og Captain Trips plágan er klárlega Syndaflóðið.

The Stand er upp og ofan, hún byrjar frábærlega þegar hún er að lýsa því hvernig plágan byrjar og dreifist um öll Bandaríkin (ég man ekki til þess að bókin hafi tekið á restina af heiminum), hvernig hún kynnir persónur og forsögu þeirra, hvernig hún lýsir ferðalagi fólks og sameiginlegu draumunum. Annar hluti er þegar fólk er smátt og smátt að fylla borgirnar og samfélög taka að myndast og sá hluti er hreinlega ekki nægilega grípandi sem gæti verið út af lengri útgáfunni. Síðasti hluti er svo lokauppgjörið sem náði ekki þeim hæðum sem maður býst við frá Stephen King. Ef ég ætti að gefa þessari bók einkunn núna þá fengi hún 3 ½ af 5 en ég veit að tánings-ég gaf henni harða fimmu.

Næst mun ég lesa IT sem ég hlakka mjög mikið til að lesa og ég er vongóðri um að tánings-ég og gamli-ég verði nokkuð sammála þar… „We all float down here“.

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑