Bækur og blöð

Birt þann 19. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

The Authority – Seinni hluti

We wanted to change the world but it changed us. And all we can do is pick up the pieces.
– Jack Hawksmoor

 

Umfjöllun í tveimur pörtum um The Authority, ofurhetjulið í Wildstorm heiminum sáluga. Þau börðust gegn geimveruinnrásum og gleymdum guðum milli þess sem þau eyddu einræðisherrum og spilltum forstjórum.

 

Gullöldin

Eftir að Millar og félagar létu sig hverfa frá The Authority 2002 átti sér stað örlítið endurræsing (reboot), ný sería byrjaði á blaði númer 0 og gekk í um eitt og hálft ár. Á þessu tímabili átti sér stað gríðarleg gróska og nokkrar sögur voru gerðar um liðið sem ekki tengdust seríunni beint.

The Authority - PrimeÁ þessum tíma átti The Authority sína gullöld, liðinu var troðið í allar mögulegar og ómögulegar sögur og bækur í Wildstorm heiminum. Mikið var um mismunandi „one–shot“ bækur og míníseríur sem fóru um víðan völl og voru misgáfulegar, í sumum börðust þeir gegn páskakanínunni og í annarri gegn margvídda spilavíti.

Brestir fóru að myndast, liðið var í raun of öflugt. Það var ekkert sem gat stoppað þau svo hætturnar urðu að verða stærri og ótrúlegri. Það er í raun ótrúlegt að einhver hafi búið í stórborgum í þessum heimi þeirra þar sem þær urðu fyrir stöðugum innrásum og sprengingum til að gefa til kynna hversu hættulegir óvinir vikunnar voru. Í einni sögu er Flórída ríki eytt, Finnland er víst mannlaus auðn eftir stjórn ofurmenna, Sankti Pétursborg er horfin af kortinu, listinn heldur áfram.

Á ákveðnu tímabili sést að höfundar eru að verða búnir með stórborgir til að eyða, höfðaborg í Suður-Afríku verður fyrir höggi og Melbourne í Ástralíu. Snemma á ferlinum verður Ísland meira að segja fyrir árás þó að eyðileggingunni sé ekki lýst.

Það voru þó nokkrar sögur frá þessu tímabili eins og Human on the Inside sem tókst að sýna liðið ekki bara sem almáttugt yfirvald heldur sem manneskjur. En staðreyndin er sú að þegar ofurhetjurnar geta gert hvað sem er verður erfitt að gefa þeim nýja óvini og að halda söguþræðinum ferskum. Að vissu leyti gáfust nokkrir höfundar upp á því með fyrrgreindum páskakanínuafleiðingum.

Árið 2004 tók The Authority yfir Bandaríkin eftir að hegðun ríkistjórnarinnar hafði valdið eyðileggingu Flórída og enn einni geimveru innrásinni á New York. Um var að ræða mikinn „event“ í Wildstorm heiminum „coup d‘etat.“ The Authority tók yfir Bandaríkin, Jack Hawksmoor varð forseti ríkisins og liðið fór að „hreinsa til“. Þetta endaði með hinni stórgóðu en gölluðu sögu Revolution sem reyndist banabiti The Authority á fleiri en einn hátt.

 

Revolution og endurræsingar

The Authority - RevolutionÍ Revolution brotnar liðið í sundur þegar uppreisn gegn þeim endar með algjörri eyðingu Washington borgar. Þegar sagan endar er The Authority endurskapað af Jenny Quantum, þá átta ára stelpu sem með guðlega hæfileika. Eftir að hafa mistekist hrapallega að bjarga Bandaríkjunum frá spillingu og græðgi og barist gegn fornum fjendum átti the authority að vera sterkara en áður, betra og öflugra. Nýir meðlimir, nýtt skip, og heimur sem vissi að liðið myndi ekki gefast upp. Mikils var að vænta frá þessu liði sem var stjórnað af almáttugri smástelpu.

En eftir það gerðist lítið. Árin liðu, og sölutölur Wildstorm voru ekki upp á sitt besta. D.C., móðurfyrirtæki Wildstorm var að endurræsa sinn heim hvað eftir annað og Wildstorm ákvað að prófa þetta endurræsingardót sem allir voru svona hrifnir af. Fyrsta tilraunin var Captain Atom: Armageddon, en þar lendir C-lista D.C. ofurhetjan Captain Atom í Wildstorm heiminum og veldur þar miklum hamförum eins og ofurhetjum er lagið. Sagan endar á því að meirihluti Authority deyr og heimurinn er endurræstur. Allt skal vera nýtt, betra flottara og betra.

Og ný sería byrjaði að vísu 2006, skrifuð af Grant Morrison (All Star Superman, Batman R.I.P, Animal Man, Doom Patrol) en aðeins tvö blöð komu út. Morrison hafði víst nóg á sinni pönnu ásamt listamanninum Gene Ha og seríunni var einfaldlega slúttað. Sem er synd, sagan er góð og hefði getað spýtt nýju lífi í liðið. Þar var The Authority á ferðalagi í gegnum fjölvíddirnar á leiðinni heim, en skipið þeirra er laskað og á erfitt með víddaflakk. Morrison lýsti þessu sem „ódysseifsferðalagi“ um fjölvíddirnar. (Mörgum árum seinna var sagan kláruð undir nafninu The Lost Year en það reyndist of seint til að bjarga liðinu.)

 

Myrkir og drungalegir tímar

Endurræsingin hafði ekki tilætluð áhrif og því var ákveðið að reyna það aftur. Það sem virkar fyrir D.C. hlýtur að virka fyrir Wildstorm ekki satt? Ráðist var í endurræsinguna með hrapallegu sögunni Number of the Beast. Captain Atom bókin var ekki beinlínis Laxness en hún var þó þolanleg og hlutskipti venjulegs fólks í þessum ofbeldisfulla heimi eru gerð góð skil. En Number of the Beast var óskiljanlegur grautur af klónum, heimsendaáætlunum og tilvitnunum í Biblíuna. Heiminum var eytt af klónum af ofurhetjunni The High sem sprengja sig í loft upp í kringum plánetuna og drepa þar með meirihluta jarðarbúa og leggja jörðina meira og minna í rúst.

The Authority - Worlds EndWildstorm má eiga það að þeir stóðu við stóru orðin í þetta skiptið, þetta er hugsanlega eina endurræsingin sem virkilega breytti hlutum varanlega. The Authority var algerlega óundirbúið og fær harðasta skellinn. Öflugustu meðlimir þess deyja, aðrir missa krafta sína, verða farlama og veikburða. Skipið þeirra hrynur vélarvana í London og samblandast borginni, Apollo, Súperman klónið, getur ekki verið þar en Evrópa er hjúpuð myrkri og hann þarfnast sólarljóss. Aðeins Swift og Midnighter halda eftir kröftum sínum en þau eru lítils megnug gegn þeim hryllingi sem gengur um jörðina eftir heimsenda.

Serían byrjaði á ný undir merkinu Worlds End og lögð var áhersla á hrylling. 29 eintök komu út frá 2008 til 2011 þegar D.C. lokaði dyrum Wildstorm endanlega. Þessar nýju sögur áttu sér allar stað í þessum myrka og drungalega heimi þar sem meirihluti mannkyns var dáinn og litla von var að finna. Þetta nýja sögusvið var endurnærandi, sérstaklega þar sem ekki var reynt að ferðast aftur í tíma og laga neitt. Heimurinn var að hruni kominn og það var bara þannig. Nú þurftu hetjurnar að lifa við það að hitta varla ástvini sína, hafa enga krafta og of mikið af flóttafólki. Og nú þegar öflugustu meðlimir liðsins voru horfnir var hægt að hóta liðinu með einhverju eðlilegu.

 

Kveðja jörðina og ferðast um geiminn

Í síðustu tíu blöðum eða svo var hinsvegar breytt algerlega um stefnu, Skip þeirra vaknaði til lífsins og ákveðið var að segja skilið við jörðina og ferðast um geiminn til að finna nýjan heim og hjálp. Nú voru aðeins þrír meðlimir upprunalega liðsins eftir en í staðinn komu nokkrir tugir annarra ofurhetja.

Þegar hér er komið til sögu er að finna nokkra góða spretti en kjarninn er einfaldlega orðinn svo gjörbreyttur frá því sem The Authority var upprunalega að erfitt er að telja þetta sama liðið. Upprunalega liðið var fámennt en öflugt og barðist ekki bara gegn ofurógnum heldur staðnaðri heimsynd. Nýja „liðið“ flakkar á milli pláneta og ofurógna og er svo fjölmennt að George R.R. Martin þyrfti að hafa glósubók við höndina.

 

The Authority sett í frost

Þegar Wildstorm var lokað og The Authority lagði að lokum upp laupana, var lítið eftir af baráttuandanum og uppreisnargirninni sem hafði einkennt seríuna. Að vissu leyti varð serían og liðið sjálft að fórnarlömbum sinnar eigin velgengni. Ef liðið barðist gegn heimsenda í hverri viku varð eyðileggingin og brjálæðið sem því fylgdi einfaldlega of mikið. World‘s End var lofsverð tilraun en of sein til leiks, lesendur voru ekki nægilega margir og að lokum þróaðist serían útí eitthvað allt annað en lagt var upp með.

The Authority er eins og stendur í frosti hjá D.C. og kannski verður seríunni einhvern tímann komið í gang á ný. Hugsjónir þeirra um betri heim í krafti ofurmenna verður því draumsýn enn um sinn.

 

Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑