Bækur og blöð

Birt þann 23. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Myndasögurýni: Who Killed Retro Girl?

Í heimi þar sem ofurhetjur eru frekar eðlilegur hluti daglegs lífs eru enn framdir glæpir. Morð eiga sér stað og það þarf að rannsaka þau. Og þegar ofurhetjur deyja er kallað á sérstaka deild innan lögreglunnar sem sérhæfir sig í að rannsaka hið ómögulega. Þetta er sögusvið seríunnar Powers eftir Brian Michael Bendis.

Í heimi Powers hafa ofurhetjur verið til síðan í seinni heimstyrjöldinni og hafa þar með langa og flókna sögu, en umfram allt nútímaheim sem er vanur því sem er í gangi. Þar sem ofurhetjur og illmenni fljúga um stórborgir, skjótandi göldrum og geislum í allar áttir. En þrátt fyrir að hafa ofurmennska krafta enda þessir einstaklingar samt stundum liggjandi í blóði sínu í húsasundum. En hvernig eiga mennskir lögregluþjónar að fást við einstaklinga sem geta skotið geislum úr augunum og flogið hraðar en byssukúla? Hvernig stundarðu rannsókn þegar húð fórnarlambsins er skotheld og ónæm fyrir skurðarhnífum?

Who Killed Tank GirlÞessum heimi er lýst með frábærum teikningum Oeming og orðum Bendis. Samtöl eru eins og klippt úr Tarantino mynd, endalaust mas um allt og ekkert, lítið um ræður og samtöl eru raunveruleg samtöl. Ein persóna segir eina setningu og önnur svarar með annarri. Hljómar „basic“ en það er ekki fyrr en maður sér svona samtal sem það kemur í ljós hvað vantar í margar myndasögur. Ekki eru allir þó sammála um ágæti „Bendistalsmáta.“

Persónusköpun er prýðileg, helst ber að nefna lögreglukonuna Deena Pilgrim, sem er svo sannarlega með munninn fyrir neðan nefið og bein í nefinu. Hún er nýliðinn sem þarf að kynnast öllu ásamt lesandanum og hefur ekki áhyggjur af því að troða fólki um tær meðan hún er að því.

Fyrsta saga Bendis Who Killed Retro Girl? kynnir allar þessar hugmyndir til leiks. Ofurhetjan Retro Girl, góðhjarta og vinsæl ímynd betri tíma, er drepin í köldu blóði. Christian Walker og nýliðinn Deena Pilgrim eru send til að rannsaka málið en hafa fáar vísbendingar. Retro Girl var ekki bara vinsæl heldur gríðarlega öflug, það ætti að vera svo gott sem ómögulegt að drepa hana. Á sama tíma reynir Deena að komast til botns í málum Christian sem þekkir allar ofurhetjur og skúrka með nafni og flestir virðast þekkja hann. Christian var nefninlega ofurhetjan Diamond áður en hann missti kraftana og gekk til liðs við lögregluna. Saman þræða þau samfélag ofurmenna í leit að morðingjanum en hafa lítið sem ekkert til að vinna með. Uppskurður á Retro Girl leiðir ekkert í ljós enda getur læknirinn ekki skorið húðina, hvað þá komist að því hvað olli dauða hennar.

Sagan er langt því frá að vera gallalaus, eins ég sagði áðan eru ekki allir sem fíla Bendistalsmátann og teikningar Oeming virðast stundum eiga erfitt að með að rýma allar talblöðrurnar.

Sagan er langt því frá að vera gallalaus, eins ég sagði áðan eru ekki allir sem fíla Bendistalsmátann og teikningar Oeming virðast stundum eiga erfitt að með að rýma allar talblöðrurnar. Heilu blaðsíðurnar eru meira og minna sama teikningin í mismunandi litum, með litlum svipbrigðamun á meðan talblöðrurnar dansa um allt. Það er smekksatriði hvað lesandanum finnst um þetta. Samtöl stjórna hér bæði formi og stíl, sem getur verið bæði uppáþrengjandi og leiðigjarnt ef viðkomandi fílar ekki samtölin.

Ég hinsvegar elska samtölin og vildi hreinlega að fleiri höfundar bættu við gagnslausum samtölum inní sögur sínar. En þegar teikningarnar frjósa í heila og hálfa blaðsíðu getur það verið truflandi og virkar stundum á mann eins og leti.

Ég mæli algerlega með þessarri seríu og Who Killed Retro Girl? er frábær staður til að byrja á. að vissu leyti má þó taka upp hvaða bók sem er af Powers og láta óheflaðan kjaftinn á persónunum sjá um að segja þér hvað hefur gerst og hver staðan er.

 

Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑