Bíó og TV

Birt þann 9. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Draumbitar, brennivín og Bruce Campbell á Mad Monster Party

Jósef Karl Gunnarsson skrifar:

Fyrir ári síðan fór ég á mína fimmtu hryllingsmyndahátíð, þar sem maður fær að hitta leikara og aðstandendur ýmissa hryllingsmynda, í borginni Charlotte í Norður Karólínu-fylki í Bandaríkjunum. Ég ákvað að endurtaka leikinn þetta árið eftir að hafa grandskoðað aðrar hryllingsmyndahátíðir sem voru á döfinni.

Það sem gerði þessa hátíð ómissandi var að eiga möguleika á að sjá og hitta Bruce Campbell (Evil Dead myndirnar, Burn Notice), David Naughton (An American Werewolf in London) og Gunnar Hansen (The Texas Chain Saw Massacre, Reykjavík Whale Watching Massacre). Þessi hátíð ber heitið Mad Monster Party og er þetta í annað sinn sem hún er haldin. Ég vil meina að skipuleggjandi hátíðarinnar reyni að hugsa utan kassans þegar kemur að gestavali því uppstillingin sker sig úr öðrum hátíðum. Það er líka reynt að höfða til fólks sem hefur gaman af vísindaskáldskap og þungarokki. Á heimasíðu hátíðarinnar er enn hægt að sjá gestalistann í ár.

Ég vil meina að skipuleggjandi hátíðarinnar reyni að hugsa utan kassans þegar kemur að gestavali því uppstillingin sker sig úr öðrum hátíðum.

Ég flaug út miðvikudaginn 20. mars og dúsaði á JFK-flugvelli yfir nóttina og beið eftir tengifluginu sem var morguninn eftir. Ég tók með mér bók til að stytta mér stundir, 1st to Die eftir James Patterson, og kláraði hana um nóttina. Því miður þá hafði ég fengið flensuna nokkrum dögum áður en ég fór í þessa ferð og ekki hjálpaði svefnleysið uppá hressleikann. Loksins var ég kominn á hótelið mitt í Charlotte rétt eftir hádegi og hafði ég vakað í yfir sólahring. Sem betur fer var lítil gjafabúð þar sem ég gat keypt lyf til þess að berjast við slappleikann. Ég fór strax upp í herbergi og fékk mér smá blund. Vaknaði nokkrum tímum seinna, aðeins skárri og nefið hætt að angra mig, svo ég gat fengið mér að borða áður en ég færi aftur í háttinn. Veðrið var frekar kuldalegt, í rauninni íslenskt veðurfar ef eitthvað. Þess vegna vonaðist ég til að verða hressari daginn eftir, tilhugsunin um að vera veikur á hátíðinni var ekki skemmtileg. Áður en ég fór í háttinn náði ég að horfa á einn þátt af Psych og auglýsingin fyrir næsta þátt var ansi áhugaverð. 100. þátturinn myndi vera í anda borðspilsins Clue og áhorfendur gætu fengið að velja endinn, það er að segja hver morðinginn ætti að vera af öllum þeim grunuðu.

Veðrið var frekar kuldalegt, í rauninni íslenskt veðurfar ef eitthvað. Þess vegna vonaðist ég til að verða hressari daginn eftir, tilhugsunin um að vera veikur á hátíðinni var ekki skemmtileg.

Það var kominn föstudagur og ég var eins og nýr maður, alls ekki slappur eins og daginn áður. Þar sem hátíðin byrjaði ekki fyrr en um síðdegi ákvað ég að nota tímann og fara í Walmart og GameStop til þess að athuga úrvalið á kvikmyndum og leikjum. Úrvalið á hryllingsmyndum var ansi slappt en ég keypti þó An American Werewolf in London á Blu-ray ásamt öðrum DVD myndum um helgina. Ég keypti Batman: Arkham Asylum (því að mig langaði að spila sem Jókerinn), God of War: Ascension og Hitman: Absolution. Einnig keypti ég FIFA 12 fyrir félaga minn svo maður gæti spilað við hann í gegnum netið við tækifæri. Ég ákvað að geyma það að kaupa Tomb Raider, verðmunurinn er svo lítill að það væri betra að bíða eftir því að hann falli í verði. Leikir í Bandaríkjunum eru ekkert mikið ódýrari en leikir hér á Íslandi, nýir leikir kosta vanalega um 7-9 þúsund íslenskar krónur.

Gunnar HansenÞað var kominn tími til að kíkja á hátíðina og alla helgina notaði ég lest til að ferðast milli hótelanna. Það var samt sem áður 10-15 mínútna spölur sem ég gekk alla dagana og það stoppaði eldri maður og bauð mér far að lestarstöðinni. Ég þáði það og kvaðst vera frá Íslandi, þá svaraði hann að dóttir hans hafði verið þar fyrir viku síðan.

Skömmu síðar var ég kominn á hátíðina og fyrsta sem ég gerði var að finna borðið hans Gunnars. Ég hafði áður haft samband við fulltrúa hans í gegnum tölvupóst og spurt hvort ég gæti tekið stutt viðtal við Gunnar. Ég fékk leyfi hjá honum og hann var með Gunnari þarna, hann heldur utan um bókanir varðandi slíkar ráðstefnur. Þeir sögðu við mig að best væri að hafa viðtalið á sunnudeginum því þá er mun rólegra. Ég kvaðst vera hérna yfir alla helgina og það væri ekkert vandamál. Ég lét Gunnar árita hulstrið á disknum mínum og fékk að taka mynd með honum. Þetta árið voru verðin á áritunum og myndatökum mun viðráðanlegri. Og í felstum tilfellum var mynd innifalin með árituninni, en stjörnurnar ráða verðlaginu og þetta gladdi mig mikið því þetta var öðruvísi í fyrra. Ég kom ekki tómhentur til Gunnars heldur gaf ég honum Draum bita ásamt pínkulítilli brennivíns flösku sem ég keypti í fríhöfninni. Ég hafði nefnilega lesið gamalt viðtal við Gunnar þar sem hann sagði að hann slægi aldrei höndinni á móti flösku af brennivíni. Hann sló höndinni ekki á móti og þakkaði fyrir sig. Það var dálítil röð hjá honum og ég sagði að ég kæmi síðar til að spjalla við hann.

Ég kom ekki tómhentur til Gunnars heldur gaf ég honum Draum bita ásamt pínkulítilli brennivíns flösku sem ég keypti í fríhöfninni. Ég hafði nefnilega lesið gamalt viðtal við Gunnar þar sem hann sagði að hann slægi aldrei höndinni á móti flösku af brennivíni.

Ég kíkti aðeins við og spurði Danny Glover um sjónvarpsþættina Touch sem hann lék í fyrstu seríunni af. Hann átti erfitt með að heyra í mér en sagði mér að hann vissi ekki neitt um hvort hans brottfall úr þáttunum var planað eða ekki, bara birtist í handritinu fyrir þann þátt. Annars var hann ekki mjög málglaður og ég lét aðra komast að.

DeLorean_timavelin

Ég var að skoða mig um svæðið og fyrir framan einn sal var DeLorean tímavélin úr Back to the Future myndinni. Terry og Oliver Holler voru þarna með tímavélina sína sem þau bjuggu sjálf til fyrir rúmlega 10 árum síðan og hafa síðan verið í samstarfi við TeamFox að safna peningum fyrir rannsóknum í leitinni að lækningu við Parkinsons veiki. Og bíllinn virkar, þau keyra hann um land allt, frá einum viðburði til annars. Þau eru með vefsíðuna ToTheFuture.org og er einnig hægt að finna þau á Facebook. Ég gaf pening í söfnunina og fékk að launum myndir af mér í bílnum. Ég spjallaði aðeins við þau og gaf þeim íslenskt nammi. Terry sagði að ættingi sinn væri að fara til Íslands eftir viku eða meira. Svo að ég skrifaði niður nokkur heiti af íslensku nammi fyrir hana. Þau voru það indæl að ég fékk gefins flux capacitor nælu sem blikkar og Back to the Future spilastokksleik.

David NaughtonEftir það fór ég á „spurt og svarað“ viðburð með David Naughton og Vic Armstrong varðandi kvikmyndina An American Werewolf in London. Það voru ekki margir sem voru komnir í salinn svo ég fékk leyfi til að sitja á fremsta bekk. Ég tók upp viðburðinn á hljóðrænu formi og mun deila því með lesendum Nörd Norðursins von bráðar. Það voru góðar sögur sem komu fram þarna, einnig hlutir sem hafa ekki komið fram á Blu-ray eða DVD útgáfu myndarinnar (ef mig minnir rétt).

Skömmu síðar fór ég aftur uppá hótelið mitt til að skilja dótið mitt eftir og ég fór aftur í bæinn til þess að kíkja á næturklúbb, The Roxbury, sem er í anda níunda og tíunda áratugarins. Hann er frá sömu eigendum og The Breakfast Club sem ég fór á síðasta ári en sá klúbbur er ekki lengur opinn. Þessi er kominn í staðinn á öðrum stað og það voru meira segja gamlir spilakassar þarna, t.d. Tetris og Pac-man kúluspil. Meira að segja barþjónninn þekkti einhverja Íslendinga þegar hann var í skóla einhvers staðar. Mundi meira að segja nöfnin á þeim, Gylfi Gylfason og einhvern Atla sem hann man ekki hvers son hann var. Ísland er ekki lengur svo lítið finnst manni eftir þessa ferð. Annars lærði ég af reynslunni frá því í fyrra og fór ekki frammúr mér í bjórdrykkjunni.

Ghostbusters_billÁ laugardaginn fyrir utan hótelið var eftirlíking af ECTO-1 bílnum úr Ghostbusters myndunum og ég styrkti þá gegn því að fá að taka myndir af mér í bílnum. Bíllinn er ekki alveg eins og í kvikmyndunum en eins nálægt og hægt er til þess að halda honum öruggum í akstri.

Þetta var greinilega Bruce Campbell dagurinn, því það var allt pakkað. Ég vissi ekki alveg hvernig þetta átti að virka þar sem hann var í takmarkaðan tíma þarna. Það var víst einhver svakaleg röð og ég spurði ekki um hvað það snérist, held að það hafi verið röðin til þess að fá tekna mynd með honum. Veit ekki einu sinni hvort maður þurfti að vera með sér miða fyrir það eins og með eiginhandaáritunina sem ég var heldur ekki með. Allavega gat maður kíkt á „spurt og svarað“ með honum og ég ætlaði að vera sniðugur og mæta aðeins fyrr til þess að fá gott sæti en þegar ég kom þarna milli 30-60 mínútum fyrr þá var salurinn stappaður. Ég ákvað að sitjast um fremst um miðjan salinn og því er erfitt að heyra hvað er verið að segja stundum á upptökunni nema maður noti heyrnartól. Bruce Campbell fór á kostum og skemmti áhorfendum með svörum sínum. Að því er virðist þá gæti Army of Darkness 2 litið dagsins ljós ef marka má það sem hann sagði og það sem maður hefur lesið á netinu.

Að því er virðist þá gæti Army of Darkness 2 litið dagsins ljós ef marka má það sem hann sagði og það sem maður hefur lesið á netinu.

Næst á dagskrá var að fá áritun frá David Naughton og ég var ekki fyrsti Íslendingurinn sem hann hefur hitt. Fínn náungi þarna á ferð, en ég stoppaði ekki lengi þar sem það var margt fólk þarna. En hann fékk samt sem áður einn Draum bita að launum og þáði það.

Bruce CampbellÉg fór í hryllilega langa röð sem var fyrir Bruce Campbell til þess að fá áritun. Eftir að hafa beðið þarna í klukkutíma án þess að byrjað væri að árita fékk ég upplýsingar frá starfsmanni að þetta væri bara fyrir þá með sér miða. Þannig að ég ákvað að bíða nálægt þar sem Bruce var að árita og sjá hvort það væri tími fyrir mann eftir að það var búið að árita. Það var leyfilegt að taka myndir af honum að árita svo ég tók nokkrar myndir þar sem ég var svo langt í burtu þegar ég var á „spurt og svarað“ viðburðinum. Skipuleggjandi hátíðarinnar var þarna, sá mig og hleypti mér í gegn. Ég átti ekki von á því og þakkaði honum vel fyrir. Hann mundi eftir mér frá því í fyrra og man ennþá eftir íslenska namminu. Þetta voru 30 dollarar fyrir aðeins eina áritun og þetta gekk fyrir sér eins og vel smurð vel. Það var ekkert mikið staldrað og röðin látin halda áfram. Ég sagði Bruce að ég væri frá Íslandi og hann furðaði sig á vegalengdinni. Ég var með Evil Dead 2 með mér og lét hann árita hana. Svo var ég með Army of Darkness frá einum vini bara til vara og hann bara lét vaða og tók hana úr hulstrinu. Nema hvað þá tók hann aðrar kápur sem voru undir Army of Darkness, eftir þrjár atrennur og „Jesus!“ (eða eitthvað álíka) síðar var komin áritun á hana líka. Og þetta átti að vera bara ein áritun sem var ansi ólíkleg þegar ég heyri allt of seint með þessa sér miða sem voru löngu uppseldir þegar ég frétti af þeim. Ég þakkaði honum vel fyrir og lét hann fá afganginn af Draum kassanum sem ég var með. Þá er bara vonandi að hann láti sjá sig á annari hátíð svo ég geti smellt einni mynd af mér með honum næst. Ég reyndar botna ekkert í þessari skrift hans, fyrir utan nafnið mitt og Ash. Ég lét mér þetta nægja og fór út af hátíðinni í burtu frá ringulreiðinni.

Ég þakkaði honum vel fyrir og lét hann fá afganginn af Draum kassanum sem ég var með.

Á sunnudaginn var frekar rólegt á hátíðinni, hálfgerður draugabær miðað við daginn áður. Ég sá að það var ódýrt að láta taka mynd af sér með Gary Busey og ég kýldi á það. Hann var nú ekki málglaður og tók ekki í hendur fólks, heldur svona „respect fistbump“. Hann átti nokkuð erfitt að skilja mig þegar ég bauð honum nammi. Ég verð að játa að það var dálítið dapurlegt að sjá hvernig hann hefur farið með sjálfan sig. Ég heyrði út frá mér á hátíðinni sem einhver sagði öðrum að hann liti ekki eins klikkaður út og þegar maður sér hann vanalega í raunveruleikaþáttunum.

Gary_Lea_Draumur

Því næst ákvað ég að taka mynd af mér með Lea Thompson sem var í Back to the Future myndunum. Hún var mjög indæl og hefur lítið breyst í útliti að mínu mati. Hún þakkaði mér fyrir komuna og nammið sem ég færði henni.

Ég stoppaði aðeins við borðið hans Vic Armstrong sem er einn þekktasti áhættuleikari í Hollywood og hefur komið nálægt mörgum af stærstu myndum í kvikmyndasögunni eins og Indiana Jones og Bond myndunum. Ég spurði hann hvort eitthvert áhættuatriði á hans ferli hafi endað illa og jafnvel lífshættulega. Hann nefndi engar myndir en það hafa þó verið einhver beinbrot, t.d. eitt skipti axlarbrotnaði hann. Þegar ég sagði honum að ég væri frá Íslandi þá mundi hann eftir tímanum sem hann var við tökur á Íslandi við Bond myndina, Die Another Day, og nefndi íslenskan áhættuleikara á nafn. Ég kvaðst hafa séð myndina í kvikmyndahúsum á sínum tíma og að ég hafði tekið eftir smá villu hvað varðar númeraplöturnar í sumum nærmyndum í senum þar sem sást í íslenskt bæjarfélagsmerki.

Síðan var komið að því að taka viðtalið við Gunnar Hansen, það var orðið rólegt og tilvalinn tími til að henda nokkrum spurningum til hans. Viðtalið verður birt von bráðar en við spjölluðum þó lengur um Ísland og veðrið.

Síðan var komið að því að taka viðtalið við Gunnar Hansen, það var orðið rólegt og tilvalinn tími til að henda nokkrum spurningum til hans. Viðtalið verður birt von bráðar en við spjölluðum þó lengur um Ísland og veðrið. Á sunnudeginum var rigning fyrri partinn og frekar svalt, þetta er einmitt uppáhalds veðrið hans Gunnars. Ég sagði honum að mér fannst eins og ég hefði komið með íslenska veðrið með mér því það væri ekkert hlýrra hérna. Í fyrra var sól og blíða, heitt á daginn og svalt á kvöldin. Ekkert svoleiðis núna nema á laugardeginum þá var sól og smá hiti en samt svalt, fullkomið vetrar-eða haustveður. Hann sagði mér að hann hefði spurði félaga sinn hvort hann kæmi út að borða á föstudagskvöldinu en þá var allt of kalt fyrir hann, sem er engin furða þar sem hann býr í Flórída. Gunnar reynir að koma árlega til Íslands að hitta ættingja og vini en kemst ekki fyrr en á næsta ári þar sem hann er of upptekinn núna. Yfirleitt hafa þetta verið helgar en þegar hann var við tökur á Reykjavík Whale Watching Massacre þá var hann þar í hátt í mánuð þó svo að hlutverk hans var frekar smátt. Honum þykir ekkert betra en að vera á kaffihúsi í Reykjavík og honum er alveg sama hvernig veður er svo lengi sem hann fær kaffið sitt. Hann þakkaði mér fyrir brennivínið en hann fékk sér af því kvöldið áður. Hann reynir að eiga eitthvað af því til heima hjá sér. Hann leyfir sér ekki að borða sælgæti en þetta smáræði sem ég kom með gladdi hann því það minnir hann á æsku hans á Íslandi. Ég sagði honum aðeins um mig, hvaðan ég væri og svoleiðis. Það var ansi gaman að spjalla við hann og vonandi hef ég tækifæri til að spjalla við hann í framtíðinni. Það má til gamans að geta að hann er enn að vinna að bók um sinn hlut við gerð myndarinnar, The Texas Chainsaw Massacre. Bókin mun bera heitið, Chain Saw Confidential, og er stefnt á að hún verði gefin út næstkomandi september.

Ég fór á enn einn „spurt og svarað“ viðburð og í það skiptið voru Laurence R. Harvey og Ashlynn Yennie úr kvikmyndinni, The Human Centipede II (Full Sequence), til þess að svara spurningum viðstaddra um Human Centipede myndirnar. Ég sat nokkuð framarlega þar sem ekki margir voru þarna, en fyrir aftan mig var einhver að borða snakk og skrjáfaði mikið í pokanum hjá honum. Sem betur fer heyrist nógu vel í þeim, en á nokkrum stöðum getur verið erfitt að heyra hvað er verið að segja.

Áður en ég fór tók ég nokkrar myndir af safngripum úr kvikmyndinni Jaws og fékk að taka mynd með mér og hákarlinum. Þetta er ekki hákarlinn sem var notaður í myndinni en er þó gerður frá sama móti og upprunalegi hákarlinn. Það var kannski klukkutími til viðbótar til lokunar en margir voru að pakka niður þar sem það voru ekki nema nokkrar hræður hér og þar. Þannig að það var kominn tími til þess að fara, en áður en ég fór hitti ég á skipuleggjandann og gaf honum nánast fullan kassa af Draum bitum í þakklætisskyni fyrir að hleypa mér til að hitta Bruce Campbell. Ég vona að hann nái að halda áfram að hugsa út fyrir kassann og færa aðdáendum bæði ný og gömul andlit.

Ég átti mér langt ferðalag fyrir höndum, svo ég fór snemma að sofa. Ég horfði á kvikmyndina Mosquito frá 1995 og Gunnar Hansen kemur við sögu í þeirri mynd. Þetta var fín skemmtun, myndin eyðir engum tíma í að byrja og byrjar með látum. Geimfar hrapar til jarðar og moskítófluga sýgur blóð úr látinni geimveru. Skömmu seinna ríður yfir faraldur um nærliggjandi svæði, risastórar moskítóflugur sem þyrstir í blóð. Myndin er alls ekki meistaraverk en mér þótti mikið koma til þegar ég sá flugurnar í ham, miðað við hversu ódýr myndin lítur út fyrir að vera. Í rauninni er þetta bara Night of the Living Dead með risastórum moskítóflugum í staðinn fyrir uppvakninga. Ég náði að komast á JFK-flugvöllinn tímanlega fyrir flugið mitt til baka, þrátt fyrir að fluginu væri seinkað vegna veðurs á JFK-flugvellinum. Enn einn áminningin að veturinn hefur ekki sleppt takinu. Þetta var fín ferð þótt ég gerði í rauninni ekki mikið þarna, hefði verið skemmtilegra að fá betra veður. Núna velti ég fyrir mér hvaða hátíð ég fer næst á, hvort það verði seinna á þessu ári eða næsta ár veit ég ekki. En ég hef augun opin og sé hvað grípur athygli mína.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Tengt efni:

• Fór á Mad Monster Party og hitti John Russo, Tony Todd og fleiri

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑