Bíó og TV

Birt þann 18. febrúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Framtíð RIFF enn í hættu

Fyrir um mánuði síðan greindum við frá því að framtíð RIFF væri mögulega í hættu. Vegna óljósra frétta um framtíðina sendi Nörd Norðursins RIFF stuðningsyfirlýsingu þar sem við lýstum yfir stuðningi við RIFF og undirstrikuðum mikilvægi hátíðarinnar.

Nörd Norðursins hefur verið í sambandi við ónafngreinda heimildarmenn en ekki getað birt neinar fréttir um efnið þar sem upplýsingarnar voru lengi vel óstaðfestar og á viðkvæmu stigi. Mbl.is greindi frá því í lok janúar að engar breytingar yrðu á RIFF í ár, en samkvæmt okkar heimildum ríkti enn mikil óvissa um málið á þeim tíma.

Reykjavíkurborg hættir að styrkja RIFF

Í dag, mánudaginn 18. febrúar, birtir DV svo frétt um málið þar sem fram kemur að Reykjavíkurborg hafi skýrslu í höndunum um starfsemi RIFF og segir Einar Örn Benediktsson, formaður mennta- og ferðamálaráðs, að farið sé með skýrsluna sem trúnaðarmál og því ekki aðgengileg öðrum. Heimildarmaður DV talar um samstarfsörðugleika á milli borgarinnar og RIFF, auk þess sem ársreikningar RIFF hafi ekki verið endurskoðaðir. Á meðan Reykjavíkurborg neitar að sýna skýrsluna er ekki hægt að staðfesta neitt, en það hlýtur að teljast nokkuð grunsamlegt að borgin leyni skýrslunni frá fjölmiðlum og almenningi.

Samkvæmt áðurnefndri grein DV mun RIFF ekki fá styrk frá Reykjavíkurborg á þessu ári, en hátíðin er að stóru leiti háð styrkjum og hefur Reykjavíkurborg meðal annars styrkt hana um 8 til 9 milljónir kr. á hverju ári. Útlitið er því svart og framtíð RIFF enn í óvissu.

Sýnum RIFF stuðning!

Við viljum hvetja alla okkar lesendur til þess að styðja við bakið á RIFF, þá glæsilegu og mikilvægu kvikmyndahátið, með því að skrifa undir þessa stuðningsyfirlýsingu.

– BÞJ

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑