Bíó og TV

Birt þann 20. ágúst, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Með geislasverð upp á vegg

Vigfús Þór Rafnsson er mikill Star Wars aðdáandi og stofnaði Facebook síðuna Star Wars á Íslandi, sem er Facebook-síða ætluð Star Wars unnendum á Íslandi. Vigfús, sem er 40 ára vaktstjóri hjá öryggisfyrirtæki, hefur ekki aðeins haldið uppi virkri Star Wars síðu, heldur safnar hann einnig ýmiskonar hlutum sem tengjast Star Wars. Vigfús segir að menn verði aldrei of gamlir til að njóta þess að safna hlutum tengdum Star Wars, þó mörgum þyki það eflaust heimskulegt og peningaeyðsla, en slík ummæli lætur Vigfús sem vind um eyru þjóta. „Þetta er áhugamál hjá mér eins og að safna frímerkjum, steinum eða snjallsímum er áhugamál hjá sumum.“ segir Vigfús.

 

Komdu sæll Vigfús, hvernig hefurðu það?

Eins og Yoda mundi segja: „Fínt hef það ég“.

 

Þú átt heldur vígalegt safn af Star Wars varningi. Hefuru verið að safna þessum hlutum lengi og hvað varð til þess að þú byrjaðir að safna?

Nei, ég get ekki sagt að ég hafi verið að safna þessu ákveðna safni lengi. Má segja að ég hafi byrjað á þessu í september 2011, þegar ég ákvað að láta gamlan draum rætast og eignast alvöru Svarthöfðahjálm. Eitthvað sem mig hafði dreymt um síðan ég var lítill drengur. Ég fyrst athugaði hvort að það væri hægt að fá svona alvöru hjálm hérna á Íslandi, en því miður þá var engin verslun sem ég fann sem sem bauð upp á svoleiðis kaup. Ég endaði svo með því að finna ameríska síðu þar sem ég fann hjálminn sem ég var að leita af á viðráðanlegu verði.

Stuttu eftir að ég fékk hjálminn í hendurnar, þá hringdi móðir mín í mig og spurði hvað ég vildi fá í afmælisgjöf, þar sem afmælið mitt nálgaðist óðfluga. Ég sagði við hana það sem ég segi við hana á hverju ári: „Æji mamma, ég veit ekki…bara eitthvað“. Tveimur vikum seinna var ég kominn með þá flugu í höfuðið að mig vantaði Stormtrooper hjálm til að hafa við hliðina á Svarthöfðahjálminum upp á hillu; mér fannst hann eitthvað svo einmana og bað hana bara að gefa mér einn svoleiðis í afmælisgjöf.

Hún sagði mér bara að finna hann á netinu og panta, og eftir að ég fékk þann hjálm í hendurnar, þá var ekkert aftur snúið. Ég var kominn með Star Wars nostalgíu og hélt áfram að finna og panta flottann Star Wars varning af netinu.

 

 

Er þetta dýrt áhugamál?

Já, þetta er dýrt áhugamál. En ég set mér takmörk hversu miklu ég eyði í hverjum mánuði og passa mig á því að fara ekki fram úr sjálfum mér. Ég er t.d. ekki að spreða tugum þúsunda í hverjum mánuði. Ég versla mjög skipulega og einset mér að panta ekki meira en 1-2 hluti á mánaðar eða tveggja mánaðar fresti. Maður verður stundum að halda aftur af sér þegar maður sér t.d. 3-5 hluti sem maður verður að eignast strax, eða hlut sem er bara til í takmörkuðu upplagi o.s.frv.

Dýrsti gripurinn sem ég hef verslað mér er Stormtrooper Deluxe stytta í takmörkuðu upplagi (1.500 stk) frá Gentle Giant framleiðandanum. Hún kostaði mig tæplega 40.000 krónur komin hingað til lands með tolli og VSK.

 

 

Er einhver hlutur í safninu þínu í sérlega uppáhaldi hjá þér?

Það mun vera lítið málm/plast módel af Fálkanum sem er fyrsta Star Wars leikfangið sem ég eignaðist þegar ég var drengur. Einhvern veginn hef ég alltaf hugsað vel um það og passað upp á að halda því í minni eigu alla mína tíð. Kannski vegna þess að ég man svo vel eftir minningunni þegar móður mín loksins lét eftir frekjunni í mér, druslaði með mér í næstu leikfangabúð, keypti þetta handa mér og vonaði örugglega innst inn að ég myndi nú halda kjafti næstu vikurnar.

 

 

Hvernig ákveður þú hvaða hluti þú kaupir í safnið? Ertu með einhverja hluti í sigtinu um þessar mundir sem þú stefnir á að bæta í safnið?

Eins og staðan er í dag, þá á ég viðskipti eingöngu við eina verslun í Þýskalandi þar sem ég versla flest allt í safnið mitt. Ég fer reglulega á síðunna þeirra og athuga hvort einhverjar nýjar vörur séu komnar eða hvort eitthvað er á leiðinni sem hægt er að forpanta.

Ég er með nokkra hluti í sigtinu, er t.d. búinn að forpanta styttur sem koma út á næsta ári frá japanska framleiðandanum Kotobukiya af Boba Fett, Svarthöfða og lífvörðum keisarans úr Return of the Jedi myndinni.

Einnig er ég að bíða eftir að eFX opni fyrir forpöntun á nýjum stormtrooper hjálmi, svokallaðri „Legend“ útgáfu úr fyrstu myndinni, A New Hope. Útgáfudagur hefur ekki verið tilkynntur því hann er enn í framleiðslu, en væntanlega kemur hann á næsta ári. Það sem er sérstakt við þennan hjálm er að hann er mótaður eftir upprunalegum „Hero“, eða „Hetju“ hjálmi. Einungis sex svoleiðis hjálmar voru búnir til fyrir fyrstu myndina, en margir svokallaðir „Stunt“ hjálmar voru búnir til. Munurinn á „Hero“ og „Stunt“ hjálmum er sá að „Hero“ hjálmurinn var notaður í nærmyndatökur og var meira lagt í þá heldur en „Stunt“ hjálmanna. T.d. eru hjálmarnir sem Luke Skywalker og Han Solo nota þegar þeir dulbúa sig sem stormtrooper hermenn, „Hero“ hjálmar. Þeir hjá eFX voru heppnir, því einungis er bara vitað um einn upprunalegan „Hero“ hjálm og gaf eigandinn þeim leyfi til að taka hann í sundur og móta eftir honum. Einnig má geta þess að þeir hjálmar sem búnir eru til í dag eru symmetrískir, þ.e.a.s. vinstri og hægri hlið samsvara sér á meðan hjálmarnir sem voru gerðir fyrir fyrstu myndina voru ósamhverfir. Margir hjálmasafnarar sjá strax muninn á þessu á meðan hinn almenni aðdáandi er kannski ekki mikið að spá í þessu.

 

 

Er ekkert erfitt að koma þessum hlutum til landsins í heilu lagi?

Alls ekki. Reyndar var ég mjög ósáttur við hversu illa Svarthöfðahjálmurinn minn var pakkaður þegar ég pantaði hann frá Bandaríkjunum. Ég hafði meðal annars pantað með honum fjórar Star Wars glasamottur úr viði og tvö stór Svarthöfða skotglös frá sömu verslun. Þeim hafa greinilega ætlað að spara pakkningarnar og tróðu þessu inn í kassann með hjálminum. Það var bara heppni að skotglösin og glasamotturnar komu heil á áfangastað. Enda ákvað ég að versla ekki þarna aftur og fann þá eftir mikla leit verslunina í þýskalandi og ákvað að prófa að panta stormtrooper hjálminn þaðan.Þegar ég fékk hjálminn frá Þýskalandi, þá kom hann í þreföldum kassa! Ég opnaði einn risastórann kassa sem innihélt minni kassa og helling af loftumbúðum, og inn í þeim kassa var kassinn frá framleiðandanum og inn í honum var hjálmurinn (pakkaður inn í harðplast í öðrum kassa).

 

Þú ert augljóslega mikill Star Wars aðdáandi, áttu þér uppáhalds Star Wars mynd?

Gagnárás keisaradæmisins, eða The Empire Strikes Back.

 

Af hverju?

Jú, þegar ég sá myndina í fyrsta skipti árið 1982 í Nýja Bíó, var hún sýnd í 4 rása Dolby Stereo með JBL hátölurum!

En grínlaust samt aðallega af því að þetta var fyrsta Star Wars myndin sem ég sá í bíó og ég veit ekki hvert ég ætlaði að fara þegar ég sá þessu hrikalegu AT-AT tæki koma trampandi í áttina að uppreisnarmönnum í bardaganum um Hoth.

 

Næstkomandi nóvember mun Sinfóníuhljómsveit Íslands halda Star Wars tónleika, þú lætur þig væntanlega ekki vanta á þá eða hvað?

Ég mun mæta ef Svarthöfði mætir aftur og stjórnar The Imperial March, eða stefi Svarthöfða eins og það kallast á íslensku, eins og hann gerði árið 2009. Þessi tónlist eftir John Towner Williams er auðvitað löngu orðin klassísk og sómar sér vel sem einstök verk á tónleikum í flutningi Sínfóníuhljómsveitar Íslands og fleiri listamanna um allan heim.

 

Þú er einnig eigandi Facebook síðunnar Star Wars á Íslandi. Hverjir eiga erindi á síðuna og hvernig hafa viðbrögðin verið til þessa?

Allir. Það eiga allir erindi sem vilja, á Star Wars á Íslandi síðuna. Þú þarft ekki að vera einhver über-súper Star Wars nörd til að líka við eða njóta hennar. Það kveikja allir á perunni þegar einhver nefnir „Star Wars“. Star Wars er orðið svo mikill og stór hluti af dægurmenningu heimsins að ég er viss um að ef einhver myndi uppgötva afskekktan ættbálk í Amazon í dag og sýna þeim mynd af Svarthöfða, þá myndu þau þekkja hann eins og skot.

 


Ein af mörgum myndum á Facebook-síðunni Star Wars á Ísland.

Um það bil 80% af efninu sem er á síðunni er húmor. Star Wars á Íslandi tekur sig ekki alvarlega. Við reynum að finna skemmtulegu og fyndnu hliðarnar á Star Wars ásamt því að sýna gullfalleg Star Wars listaverk eftir aðdáendur, magnaðar myndir beint úr kvikmyndunum, myndir teknar á bak við tjöldin sem margir hafa ekki séð áður, tengla á vídeó og svo mætti lengi telja. Einnig er fólk duglegt að senda okkur alls kyns efni, myndir og vídeó á síðuna, sem við reynum að pósta beint á síðuna okkar eftir okkar bestu getu.

Þegar ég ákvað að stofna þessa síðu, þá leitaði ég mikið af „íslenskri“ Star Wars síðu á Facebook, en fann enga opinberlega síðu. Svo ég ákvað í rælni að prufa að búa til fyrstu íslensku Star Wars síðuna á Facebook. Ég stofnaði hana um miðjan júní á þessu ári og hefur hún verið að auka fylgi sitt hægt og bítandi.Ég byrjaði í þessu einn, að pósta myndum, leita af myndum, vídeóum og finna allskyns athyglisvert efni um Star Wars en sá um daginn að ég þyrfti örugglega smá hjálp. Ég hafði þá samband við hann Steinþór Oddgeirsson sem er mikill Star Wars aðdáandi og hann ákvað að hjálpa mér með að reka síðuna.

 

Myndirðu snúa þér að myrku hliðinni (dark side) ef Svarthöfði myndi lofa fjalli af smákökum?

Of seint. Sneri mér að myrku hliðinni þegar ég var krakki. Fannst brynjurnar og hjálmarnir hjá Stormtrooper hermönnunum miku flottari en þessar tuskudruslur sem allir aðrir voru klæddir í.

 

Kærar þakkir fyrir viðtalið Vigfús, eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Takk sömuleiðis. Megi mátturinn vera með þér.

 

BÞJ

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑