Leikjarýni

Birt þann 4. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Asura’s Wrath

Endur fyrir löngu börðust átta ofurmenni með guðlega krafta í ríki Shinkoku gegn illum öflum sem kallast Gohma. Eftir sigurinn á Gohma er keisari Shinkoku myrtur og er Asura kennt um verknaðinn. Í kjölfarið er eiginkona Asura drepin, dóttur hans rænt og Asura útskúfaður úr ríki Shinkoku. 12.000 árum síðar rís Asura aftur til lífs og þyrstir í að hefna sín á öllum þeim sem sviku hann.

 

Spilun

Spilun leiksins skiptist í tvo hluta; annars vegar þriðju persónu skot- og bardagaleik og hins vegar takkarunu-bardaga.

Í þriðju persónu skot- og bardagahluta leiksins stýrir spilarinn Asura innan lítins ramma og getur skotið og barið óvini (kerfið minnir örlítið á Rez, þar sem spilarinn hefur takmarkaða stjórn á karakternum sínum og heldur skot takkanum niðri til þess að drita á óvinina). Heimurinn er lokaður og með mikið magn óvina sem spilarinn þarf að sigrast á til að komast áfram. Það er einum of auðvelt að sigra óvinina þar sem oftast er nóg að fara með miðisigtið um allan skjáinn til að festa mið á þá og drita svo á skot takkann. Þrátt fyrir að óvinirnir séu risavaxnir og margir,  þá þarf  spilarinn ekkert að óttast  þar sem hann þarf virkilega að hafa fyrir því að deyja í leiknum.

Stærsti hluti leiksins notast þó við takkarunu-aðferðina sem margir þekkja úr God of War. Takkarunu-aðferðina virkar þannig að á skjánum birtist mynd af takka sem spilarinn þarf svo að ýta snöggt á til að framkvæma nauðsynleg brögð til að sigrast á óvininum. Í sumum tilfellum þarf spilarinn að vera mjög snöggur að ýta á réttann takka og lítið má fara úrskeiðis, en í öðrum tilfellum eru litlar sem engar kröfur gerðar til spilarans sem horfir hreinlega á myndskeiðin (cut-scene) og ýtir á einn og einn taka til að sýna að hann sé enn á lífi.

Því miður er Asura’s Wrath dæmi um það seinna. Spilarinn gerir ansi lítið og skiptir litlu máli hvort hann klúðri hlutum eða ekki. Leikurinn er langt frá því að vera krefjandi og eiginlega á mörkum þess að geta kallast tölvuleikur.

Sumsé, alltof auðveldir óvinir og ókrefjandi spilun sem pappakassi gæti náð tökum á eftir sekúndu.  Á þessi leikur þá ekki bara heima í ruslatunnunni?


 

Listræn framsetning

Nei, nefninlega ekki, leikurinn á frekar heima uppi í skrítna japanska kvikmyndasafninu þínu. Þó leikurinn bjóði upp á hræðilega spilun er hann með áhugaverða sögu, persónur, stíl og framsetningu. Sérstakleg ef þú ert fyrir óhefðbundna hluti.

Hver hluti er settur upp sem sjónvarpsþáttur sem hefst með stuttri forsögu og stuttum kreditlista. Ef spilarinn dettur inn í söguna er leikurinn ávanabindandi þar sem endir „þáttanna“ endar oft á spennandi hátt og spilarann langar til þess að sjá hvað gerist í þeim næsta.

Það er ekki aðeins saga leiksins sem getur gripið þig, heldur einnig listræn framsetning. Umhverfi leiksins er töfrandi og ýkt og þú spilar reiðasta mann í heimi sem berst á móti stórlega ýktum óvinum. Einn óvinurinn er stærri en jörðin og annar skorar þig á hólm á tunglinu og notar sverð sem er þúsundir kílómetra að lengd. Bardagar leiksins eru átakanlegir og nær spilarinn að skynja reiði söguhetjunnar í gegnum titring fjarstýringarinnar.

 

Aukaefni

Spilaranum er gefin einkunn eftir hvern „þátt“ sem sýnir hversu vel hann stóð sig. Í verðlaun fær spilarinn aðgang að aukaefni á borð við endurspilun myndskeiða og mynda úr leiknum og fleia. Þó aukaefni leiksins sé algjört augnakonfekt nær það ekki að auka líftíma leiksins mikið.

 

Hljóð og tónlist

Hljóð og tónlistin í leiknum passa vel við stórlega ýkta bardaga, brútal drama og stórkostlegan söguheim. Tónlistin minnir stundum á Final Fantasy þar sem sinfóníuhljómsveit spilar epíska fantasíutóna á meðan þú hleypur um í reiði og sigrast á óvinum þínum. Talsetning leiksins er þokkaleg, en hefði mátt vera betri.

 

Niðurstaða

Spilun leiksins er leiðinleg til lengdar þar sem spilarinn gleymir því stundum að hann sé að spila tölvuleik en ekki að horfa á sjónvarpsþátt. Asura’s Wrath er aftur á móti hið fínasta sjónvarpsefni sem býður upp á epíska bardaga með listrænni framsetningu.

Spilun leiksins er leiðinleg til lengdar þar sem spilarinn gleymir því stundum að hann sé að spila tölvuleik en ekki að horfa á sjónvarpsþátt. Asura’s Wrath er aftur á móti hið fínasta sjónvarpsefni sem býður upp á epíska bardaga með listrænni framsetningu.

Asura’s Wrath er konfektkassi sem inniheldur bara bestu molana. Þar sem spilarinn fær bara bestu molana út allan leikinn (auðveld spilun, epískir óvinir, sinfóníu fantasíutónlist og nánast ómögulegt að deyja) þá áttar hann sig á því að besti molinn er ekki eins góður ef hann er eini molinn í konfektkassanum. Of djúpt?
Í stuttu; of mikið af því góða getur gert hlutina verri.

 

GRAFÍK & FRAMSETNING
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
ENDING
8,5
8,0
7,5
5,0
5,5

SAMTALS

6,9

Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑