Bækur og blöð

Birt þann 5. desember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Besta vísindaskáldsaga allra tíma!

Jóhann Þórsson fjallar um FIMM BESTU VÍSINDASKÁLDSÖGUR ALLRA TÍMA.

Gateway, eftir Frederik Pohl.

Mannkynið hefur heimsótt Venus, og fundið þar eitthvað áhugavert.

When men began to poke around on the surface of Venus they found the Heechee diggings.

Þar finnst kort af sólkerfi okkar, með plánetunum greinilega merktum inná. En að auki er einn hlutur merktur. Smástirni. Það er um tíu kílómetrar að lengd og perulaga. Að utan virðist smástirnið brennt, þó glittir í blátt á stöku stað. Að innan var alheimurinn mönnunum skyndilega aðgengilegur. Smástirnið fékk nafnið Gateway.

Þegar Gateway fannst og var skoðað kom í ljós að í því var fjöldinn allur af geimflaugum. Ekkert var vitað um þá sem höfðu búið þau til eða af hverju þau voru öll skilin eftir, en þeir sem þarna höfðu verið fengu nafnið Heechee. Einn snillingur nær að koma einni geimflauginni í gang, og skýst með henni út úr Gateway. Þremur mánuðum síðar snýr hann aftur, við dauðans dyr vegna næringaskorts en hæstánægður. Hann hafði komið að nýrri stjörnu. Skipið hafði flogið að stjörnu, farið einn hring og svo skotist tilbaka að Gateway. Stuttu seinna fer fjögurra manna áhöfn um borð í annað skip, ríkulega búið vistum í þetta sinn, og kemur því í gang

„It turned fuzzy and bright, and was gone.“

Fimmtíu dögum síðar snúa þau aftur. Og nú höfðu þau ekki aðeins séð nýja stjörnu heldur nýtt sólkerfi, og skipið hafði lent á plánetu sem hafði greinilega eitt sinn verið búin vitsumunaverum. Og þá byrjaði brjálæðið, allir vildu fá að fara í geimflaug, allir vildu fá að skoða heiminn.

Bókin Gateway fjallar aðallega um Robinette Broadhead, einn af fáum útvöldum sem vinna ferð frá þrælavinnu á jörðinni til Gateway og þar með tækifæri til að verða ríkur. Það er nefninlega þannig að ef förin út frá Gateway endar með því að þeir sem í geimskipinu eru finna einhverja nytsamlega eða áhugaverða hluti fá þeir prósentu af því sem telst virði fundarins. En tölfræði ferðalaga frá Gateway er ekki mönnunum í hag. Um áttatíu prósent þeirra sem fljúga á brott í einu af skipum Heechee koma til baka án þess að finna eða sjá neitt merkilegt. Fimmtán prósent koma aldrei til baka.

Þetta þýðir að 5% þeirra sem fara með flaug frá Gateway finna eitthvað merkilegt, eitthvað sem bætir þekkingu manna á umheiminum eða einhverja verðmæta hluti. Tækni Heechee, oft óskiljanleg, er samt langt framar okkar og því mikið verðmæti í henni.  En þessu fylgdu auðvitað gallar. Ekkert var vitað um hvernig átti að stýra skipunum sem var að finna á Gateway. Þau gerðu allt sjálf. Sum þeirra komu aldrei

aftur. Stundum komu þau miklu seinna og fólkið um borð var búið að svelta til dauða. Þó var vitað að eitt mælitæki um borð skipti um lit þegar ferðin var hálfnuð, og þannig var hægt að sjá hvort maturinn sem fólkið hafði meðferðis myndi duga. Robinette fer í nokkur ferðalög frá Gateway, sem gefa misvel. Í einu ferðalaganna hugsar hann eftirfarandi:

„There is something very frightening about knowing that there is nothing between you and instant, ugly death except a thin skin of metal made by some peculiar strangers half a million years ago. And about knowing that you’re committed to go somewhere over which you no longer have any control, which may turn out to be extremely unpleasant.“

Auðvitað gerast merkilegir hlutir í síðustu ferð Robinettes, ástæða þess að hann er hjá sálfræðingi hálfa bókina.

Uppsetning bókarinnar sjálfrar er svolítið tilraunakennd, og það er að hluta til það sem gerir hana svona góða. Frásögnin skiptist í tvennt; annars vegar saga Robinette á Gateway, sem er í raun fortíð í sögunni, og hins vegar tímar hans hjá sálfræðingnum Sigfrid von Shrink, sem gerist í nútið sögunnar. Kaflar bókarinnar skiptast nokkuð jafnt á milli þessara tveggja en til að krydda þetta setur Frederik Pohl inn búta úr forritskóða, bréf, leiðbeiningar um sturtunotkun á Gateway og fleira  tilfallandi til að dýpka sögusviðið. Þetta hljómar ef til vill furðulega, en það virkar mjög vel í bókinni sjálfri. Gateway kom út árið 1977 og vann Hugo- og Nebula verðlaunin það árið, ásamt því að vinna Locus verðlaunin og John C. Cambell verðlaunin.

Ástæða þess að ég tel þetta vera bestu vísindaskáldsögu allra tíma er að í henni sameinast allt það sem gerir bók að almennilegum vísindaskáldskap. Þarna er að finna tækni ofar skilningi nútímamanna, dularfullar geimverur, ferðalög um alheiminn, vel ígrundaðar eðlisfræði pælingar og áhugaverða samfélagsumræðu. Gateway er að auki þeim mikla kosti gædd að vera afar vel skrifuð.

Jóhann Þórsson

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to Besta vísindaskáldsaga allra tíma!

Skildu eftir svar

Efst upp ↑