Bíó og TV

Birt þann 5. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Dead-serían: #1 Night of the Living Dead (1968)

eftir Bjarka Þór Jónsson

VARÚÐ – GREININ INNIHELDUR SPILLA (SPOILERS)!Á næstu vikum mun ég taka fyrir myndirnar í Dead-seríu Romeros þar sem ég fer yfir sögu þeirra og greini þær. Í þessari fyrstu grein er farið yfir sögu fyrstu Dead-myndarinnar, Night of the Living Dead, eftir George A. Romero. Að sögu lokinni dembum við okkur í greininguna.

 

HORFA Á MYNDINA

Hægt er að horfa á myndina í heild sinni ókeypis hér á YouTube.

 

SAGAN

Systkinin Barbra (Judith O‘Dea) og Johnny (Russell Streiner) fara að leiði föður síns. Skyndilega ræðst fölur maður (uppvakningur) á Barbrö og kemur Johnny henni til bjargar. Johnny deyr í átökunum og Barbra flýr í bílnum hans en kemst þó ekki langt þar sem hún lendir í árekstri. Í skelfingu sinni flýr Barbra á bóndabæ sem er í grenndinni.

 

Ben, söguhetja myndarinnar. Ekki var algengt að sjá svarta
söguhetju í kvikmyndum á sjöunda áratugnum. Romero
gerir þó ekki mikið úr húðlit Bens í sögunni.

 

Aðalsöguhetja myndarinnar, ungur svartur maður að nafni Ben (Duane Jones), birtist fyrir utan bóndabæinn og berst við nokkra uppvakninga. Um leið og Ben stígur inn fyrir bóndabæinn hefst hann handa við að loka húsinu af svo uppvakningarnir komist ekki inn. Á meðan Barbra er í losti finnur Ben skotvopn og útvarp, og síðar sjónvarp, til þess að reyna að afla sér upplýsinga um hvað er að gerast.

 

Bóndabærinn sem Barbra, Ben og fleiri
standa vörð gegn árásum uppvakninga.

 

Harry (Karl Hardman) og Helen Cooper (Marily Eastman), dóttir þeirra Karen (Kyra Schon), auk ástfangna unglingaparsins Tom (Keith Wayne) og Judy (Judith Ridley) koma skyndilega upp úr kjallaranum. Í ljós kemur að Karen var bitin af „veru“ og liggur illa haldin.

 

Illa farið lík sem Barbra finnur á efri hæð bóndabæjarins.
Líkið er fyrsta merkið um það hættulega ástand sem hefur skapast.

 

Í miðlum kemur fram að fjöldamorð eigi sér stað í hluta Bandaríkjanna og að „verurnar“ sækist í kjöt fórnarlamba sinna og að fórnarlömbin snúi aftur til lífsins. Í sjónvarpinu er rætt um mögulega skýringu á atburðinum og virðist skýringin tengjast geislavirkni út frá geimskipi sem var á leið til (eða frá) Venus en hrapaði á Jörðinni. Tekið er fram að eina leiðin til að drepa „verurnar“ sé þungt högg eða byssuskot í höfuðið.

 

Miðill í miðli. Hér sýnir Romero sjónvarpsútsendingu þar sem fjallað er um
uppvakningana. Fjölmiðlar koma mikið fyrir í Dead-myndunum þar sem Romero
leggur áherslu á (ó)gagn þeirra.

 

Ben skipuleggur flótta og þarf að byrja á því að setja bensín á bílinn sinn svo hópurinn komist á brott. Ben og Tom fara með bílinn að bensínpumpu og dæla bensíni á hann og fylgir Judy Tom í ótta um að eitthvað komi fyrir hann. Bíllinn springur með Tom og Judy inní en Ben nær að flýja í bóndabæinn.

Ben nær að halda uppvakningunum fjarri með rifflinum sínum og í slysni skýtur hann Harry sem deyr. Karen vaknar til lífsins sem uppvakningur og gæðir sér á kjöti látins föður síns og drepur móður sína. Uppvakningarnir komast inn í bóndabæinn og Barbra verður að bráð þeirra. Ben nær að flýja niður í kjallarann og læsir sig þar inni. Hann skýtur Harry og Helen Cooper þegar þau vakna aftur til lífsins sem uppvakningar og bíður í kjallaranum í von um að hlutirnir róist.

Hópur sveitalýðs (rednecks) hefur tekið lögin í sínar hendur. Þegar tekur að daga ráfar hópurinn um land bóndabæjarins og skýtur uppvakninga. Ben fer upp úr kjallaranum og kíkir út um gluggann til þess að athuga hvað er að seyði. Fljótlega skýtur einn mannanna úr hópnum Ben þar sem hann taldi Ben vera uppvakning. Lík Bens er brennt ásamt dauðum uppvakningum og þar með endar myndin.

 

GREINING

Í fjarska líta uppvakningarnir í Night of the Living Dead út eins og hvert annað fólk. Tilhugsunin um að ógnina sé að finna á meðal „okkar“ er einkennandi í Night of the Living Dead og naut slík ógn, eins og áður sagði, vinsælda í hrollvekjum á sjöunda áratugnum. Nágrannar, vinir og fjölskyldumeðlimir geta skyndilega breyst í uppvakninga. Það má finna svipaða ógn í The Birds (1963) eftir Alfred Hitchcock:

Kvikmynd Hitchcocks fjallar líkt og mynd Romeros um skelfingu hins kunnuglega, ef svo má kalla, hópur fólks verður fyrir árás ofsafenginnar nátturu sem gengið hefur af göflunum.

(Matthías Viðar Sæmundsson, „Námyndir. Um hryllingsgerð í kvikmyndum“, Heimur kvikmyndanna, bls. 719.)

 

Fyrsti uppvakningurinn sem sést í Night. Eins og sést er uppvakningurinn
mjög mannlegur í útliti og er það einungis hegðun og náhvítur húðlitur hanssem vekur upp grunsemdir.

 

Líkt og í mörgum kvikmyndum sem fjalla um að lifa af (survival) nær sá sem lifir lengur en aðrar sögupersónur, líkt og Ben, í aðalhlutverk myndarinnar. Myndin snýst fyrst og fremst um þá fáu sem lifa af árásir uppvakninga, en um leið og lifendur lenda í klóm uppvakninga hafa þeir misst stórt hlutverk í myndinni og blandast inn í fjölmennan hóp uppvakninga. Ben nær að lifa út (nánast) alla myndina og nær þannig hægt og rólega að verða aðalsögupersónan í Night. (Jón Gunnar Þorsteinsson, „Samsömun með hryllingi. Um túlkun áhorfenda“, Heimur kvikmyndanna, bls. 734–735)

Uppvakningarnir eru hægfara, klaufalegir og ráfa rólega um í leit að mannakjöti. Þeir eru með litla sem enga greind og haga sér líkt og villt dýr. Minni þeirra hefur þurrkast út og framkvæma uppvakningarnir ekki „hefðbundna“ eða „eðlilega“ mannlega verknaði; líkt og að keyra, hjóla, elda mat eða versla. Það eina sem drífur þá áfram er leitin að næsta fórnarlambi. Sjaldan borða uppvakningarnir allt það kjöt sem skrokkur mannsins bíður upp á, þess í stað fá þeir sér vænan bita og skilja restina eftir, líkt og þeir skynji að bráðin muni rísa upp sem uppvakningur.

Romero hefur sjálfur líkt uppvakningum sínum við villidýr…

Það er ekki aðeins mennsk greind og hegðun sem uppvakningar hafa misst, heldur einnig tilfinningar (sbr. reiði, ótti, gleði og sorg). Þetta sést m.a. þegar miðað er skotvopni af stuttu færi á uppvakninga, en hegðun þeirra breytist ekkert við það þar sem þeir skilja ekki ógnina. Þeir fælast þó eldinn. Mögulega hræðast þeir hann vegna birtunnar sem frá honum kemur, en ólíklegt er að þeir forðist hann vegna sársauka þar sem þeir finna ekki fyrir neinum sársauka. Romero hefur sjálfur líkt uppvakningum sínum við villidýr: „„You have to be sympathetic with the creatures because they ain‘t doin‘ nothin‘. They‘re like sharks: they can‘t help behaving they way they do.““ (Barry Keith Grant, „Taking Back the Night of the Living Dead“, The Dread of Difference, bls. 210.)

 

Af einhverjum ástæðum hræðast uppvakningarnir eldinn.
Söguhetjurnar nota eldinn til að fæla þá frá sér.

 

Persónuleg einkenni uppvakninganna sýna að þeir hafa lifað „eðlilegu“ lífi fyrir umbreytinguna. Klæðnaður uppvakninganna er dæmi um þessi einkenni og birtist sá þáttur áhorfandanum hvað augljósast í myndinni. Bróðir Barbrö og Cooper-fjölskyldan sýna að sama hver sérkenni einstaklingsins voru, þá haga allir uppvakningar sér eins. Þrátt fyrir að uppvakningarnir hafi áður verið manneskjur er illa farið með þá, sérstaklega í lok myndarinnar þar sem sveitalýðurinn stundar það sem minnir á grimmilegar aftökur. Mennirnir gefa uppvakningunum ýmis viðurnefni; „dautt kjöt“ ( just a dead flesh), „morðingjar“ (assassins) og „afmynduð skrímsli“ (misshappen monsters). (Kim Paffenroth, Gospel of the Living Dead, bls. 41.) Framkoma og ofbeldisverk mannfólksins í garð uppvakninganna minnir á rasisma og þær árásir sem svarti maðurinn þurfti að þola í Bandaríkjunum og víðar.

 

Hópur uppvakninga. Klæðnaður þeirra sýnir að uppvakningarnir koma
úr ýmsum áttum og gefur vísbendingar um þeirra fyrra líf.

 

Svart-hvítt útlit myndarinnar nær að fanga óhugnanlegt útlit uppvakninganna og umhverfi sögunnar með leik að ljósi og skugga. Einnig var ódýrara að taka upp í svart-hvítu í stað lits og förðun uppvakninga ekki eins krefjandi og ef myndin hefði verið tekin í lit. Þrátt fyrir litla förðun er útlit uppvakninganna vel heppnað, sem undirstrikast með spili ljóss og skugga.

 

Bróðir Barbrö sem blóðugur uppvakningur.

 

Eitt óhugnarlegasta atriði myndarinnar þar sem Karen Cooper breytist í uppvakning,
étur föður sinn og drepur móður sína. Áhrif ljós og skugga gerir atriðið enn drungalegra.

 

Kim Paffenroth, prófessor í trúfræði og höfundur hrollvekjubóka, er einn af mörgum fræðimönnum sem hafa greint Dead-myndir Romeros. Paffenroth bendir á í Gospel of the Living Dead að ógnin í Night sé sköpuð af ríkisstjórninni og ríkisstofnunum, þ.e.a.s. uppvakningarnir rísa upp vegna gjörða ríkis og stofnana. (Kim Paffenroth, Gospel of the Living Dead, bls. 37.) Með þessum hætti gagnrýnir Romero ríkið og stofnanir og þar með yfirvaldið sjálft.
Á sjöunda áratugnum komu ýmsar félagslegar hugmyndir um breytingar upp á borðið sem tengdust ´68-kynslóðinni og var réttindabarátta bandarískra svertingja meðal þessara hugmynda. Í Night er Cooper-fjölskyldan sýnd sem óvirk kjarnafjölskylda þar sem fjölskyldan gerir fátt annað en að þræta innbyrðis. Cooper-fjölskyldan er þar af leiðandi tákn gamalla gilda sem eru orðin úrelt og óvirkt. Uppvakningarnir ráðast á fjölskylduna og samfélagið í heild sinni og eru þeir því táknmynd andstæðinga ríkjandi samfélagsgilda (sem einkennast af kapítalisma). Paffenroth telur ríkisstjórnina, stofnanir og hvítu mennina vera „verndara“ ríkjandi gilda og skjóta allt sem á vegi þeirra verða í þeim tilgangi að halda í gildin. Svarti maðurinn (Ben) ógnar jafnvel skipulagi þess hóps og er því drepinn í lok myndarinnar. (Kim Paffenroth, Gospel of the Living Dead, bls. 37) Ofangreind nálgun á viðfangsefninu útskýrir líklega hvers vegna áhorfandinn finnur fyrir blendnum tilfinningum í lok myndarinnar.

Paffenroth telur ríkisstjórnina, stofnanir og hvítu mennina vera „verndara“ ríkjandi gilda og skjóta allt sem á vegi þeirra verða í þeim tilgangi að halda í gildin. Svarti maðurinn (Ben) ógnar jafnvel skipulagi þess hóps og er því drepinn í lok myndarinnar.

Brjálæðir byssumenn virðast hafa náð tökum á uppvakningaárásunum með því að slátra þeim og þar af leiðandi losa mannfólkið við ógnina, samt sem áður líður áhorfandanum ekki endilega vel með endinn og óljóst hvort framtíðin sé björt eða ekki fyrir sögupersónur og söguheim myndarinnar.

 

Heimildir:
Brot úr BA ritgerðinni ÞEIR DAUÐU GANGA! eftir Bjarka Þór Jónsson

Barry Keith Grant, „Taking Back the Night of the Living Dead“, The Dread of Difference.
Jón Gunnar Þorsteinsson, „Samsömun með hryllingi. Um túlkun áhorfenda“, Heimur kvikmyndanna.
Kim Paffenroth, Gospel of the Living Dead.
Matthías Viðar Sæmundsson, „Námyndir. Um hryllingsgerð í kvikmyndum“, Heimur kvikmyndanna.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to Dead-serían: #1 Night of the Living Dead (1968)

  1. Pingback: Fór á Mad Monster Party og hitti John Rosso, Tony Todd og fleiri | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑