Retró

Birt þann 17. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Retro: UFO: Enemy Unknown (1994)

eftir Kristinn Ólaf Smárason

UFO: Enemy Unknown er fyrsti leikurinn í X-COM tölvuleikjaseríunni sem aflaði sér töluverðra vinsælda á fyrri hluta tíunda áratugs seinustu aldar. Leikurinn var gefinn út árið 1994 af Microprose, sem er þekkt fyrir leiki á borð við Railroad Tycoon og Civilization seríuna. Sögusvið leiksins er á jörðinni, í hinni ekki svo fjarlægu framtíð ársins 1999, þar sem geimverur frá Mars herja á jörðina með yfirburða tækni. Eftir að hafa reynt að berjast við geimverurnar hver í sínu lagi með litlum árangri, hafa þjóðir heimsins tekið sig saman og stofnað X-COM samtökin, sem er alþjóðlegur her með það markmið að finna leið til að sigrast á geimveruinnrásinni. Spilarinn tekur að sér hlutverk stjórnanda X-COM samtakanna.

Í byrjun leiksins sér spilarinn jörðina í þrívídd, þar sem hans fyrsta hlutverk er að velja sér stað hvar sem hann vill á hnettinum, til að byggja sína fyrstu herstöð. Fyrsta herstöðin byrjar með allt það bráðnauðsynlegasta sem þarf til þess að berjast við geimveruógnina, en það er ratsjá til að finna fljúgandi furðuhluti, flugvélar til að skjóta þá niður, ásamt hermönnum og vopnum til þess að fara á brotlendingarstaði furðuhlutanna. Herstöðvarnar eru hjarta X-COM samtakanna og eftir því sem líður á leikinn þarf spilarinn að byggja nokkrar slíkar víðsvegar um jörðina til þess að geta brugðist við innrásum. Í herstöðvaviðmóti leiksins gerir spilarinn allar helstu skipulagsframkvæmdir sínar. Þeirra á meðal er að kaupa og smíða vopnabúnað, ráða hermenn og skipuleggja hvaða rannsóknir vísindamenn hans taka fyrir. Með rannsóknum getur spilarinn uppgvötað nýjar tegundir vopna og útbúnaðar fyrir hermenn, herstöðvar og flugvélar, ásamt því að læra á tækniundrin sem geimverurnar búa yfir.  En í rannsóknarstofunum eru líka geimverur, sem hafa náðst, yfirheyrðar og krufnar til að komast að veikleikum þeirra og áætlunum.

 

 

Á jarðarviðmótinu þarf spilarinn að stjórna flugvélum sínum og fylgjast með hreyfingum geimveranna. Ratsjárstöðvarnar í herstöðvunum finna reglulega fljúgandi furðuhluti á sveimi og þá þarf spilarinn að senda út flugvélar til að skjóta þá niður. Fyrst um sinn geta flugvélarnar aðeins skotið niður smærri tegundir af fljúgandi furðuhlutum þar sem vopnabúnaðurinn leyfir ekki meira. Ef loftbardaginn fer spilaranum í vil, þarf að senda hermenn á brotlendingarstaðinn til að drepa þær geimverur sem kunna að hafa lifað af og hirða alla tækni sem furðuhluturinn skildi eftir. Bardagarnir á jörðu niðri eru umferðaskiptir, þannig að fyrst gerir spilarinn allt það sem hann getur gert með hermönnunum sínum og síðan tekur tölvan við og gerir fyrir geimverurnar. Orrustuvellirnir eru allir búnir til af handahófi fyrir hvern bardaga og því eru engir tveir bardagar eins. Þá skiptir einnig máli hvort furðuhluturinn hrapi í eyðimörk, skógi eða þéttbýli og líka hvort það sé dagur eða nótt. Þar fyrir utan eru 11 mismunandi tegundir af geimverum sem hafa allar sína styrkleika og veikleika, og því getur skipt máli hvaða útbúnað spilarinn valdi að taka með sér í hverja sendiför. Stundum gera geimverurnar árás á borgir en þá þarf spilarinn að passa sig á því að drepa geimverurnar nógu fljótt til þess að bjarga óbreyttum borgurum (og að skjóta þá ekki sjálfur), því annars gæti ríkisstjórn viðkomandi borgar ákveðið að hætta fjárveitingum til X-COM verkefnisins.

Markmið leiksins er að binda enda á geimveruógnina, en til þess þarf spilarinn að finna geimveruherstöð á jörðinni og fanga háttsetta geimveru lifandi. Ef yfirheyrslur á henni takast kemst spilarinn að því að innrásin á upptök sín á Mars, en þá þarf hann að rannsaka fullt af geimverutækni til þess að geta byggt geimfar til að fara þangað og ráða niðurlögum á foringja geimveruinnrásarinnar. Þetta allt þarf spilarinn að gera áður en geimverurnar komast til of mikilla valda á jörðinni. Ef innrásir þeirra fara úr böndunum fara þjóðir heimsins fljótt að draga sig út úr X-COM verkefninu sem leiðir á endanum til þess að spilarinn fær ekki næga peninga til að borga fyrir vopn, laun og viðhald á herstöðvum.
Þrátt fyrir að þessi leikur sé búinn til árið 1994 þá er hann merkilega djúpur og vel hannaður. Hver og einn hermaður (og geimvera) hefur mismunandi hæfileika eins og hraða, styrk, fimi, skothæfni og hugrekki, ásamt fleiru. Hermennirnir geta bætt þessa eiginleika eftir því hve mikla reynslu þeir fá í bardögum sem leiðir oftar en ekki til þess að maður bindist ástfóstri við staka hermenn ef þeir sýna miklar hetjudáðir. Gervigreindin í þessum leik er líka merkilega góð miðað við svona gamlan leik. Geimverurnar eiga það til að umkringja mann, skjóta á mann úr dimmum skúmaskotum og jafnvel fela sig ef þær eru bornar ofurliði.

UFO: Enemy Unknown hefur unnið sér inn fjölda verðlauna og verið kosinn 16 sinnum besti tölvuleikur allra tíma af mörgum mismunandi miðlum, nú seinast af PC Gamer árið 2010. Leikurinn hefur getið af sér fjölda framhaldsleikja og nokkra leiki búna til af aðdáendum leiksins sem leitast við að endurskapa upprunalega leikinn í betri grafík. Grafíkin í leiknum þykir ef til vill ekki merkileg í dag en var ein sú flottasta á útgáfutíma leiksins. Hljóðin í leiknum eru mjög flott og tónlistin, sem er ekki merkileg, ýtir þó undir drungalega andrúmsloftið sem er viðvarandi í leiknum. Þó er leiðinlegt að segja frá því að þrátt fyrir aldur leiksins er hann enn í sölu (til dæmis á Steam), og þar af leiðandi ekki ókeypis til niðurhölunar á netinu samkvæmt löglegum leiðum. Höfundur ætlar engu að síður að hvetja lesendur til að fjárfesta í þessum frábæra tímalausa leik og gefa honum smá spilun, því engin umferðaskiptur herkænskuleikur hingað til hefur komist með tærnar þar sem UFO: Enemy Unknown er með hælanna.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑