Leikjarýni

Birt þann 22. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Poopocalypse

Það er sólríkur dagur í garðinum og nóg af mat að finna fyrir dúfurnar sem flækjast þar um. Skyndilega er bannskillti skellt niður í gras garðsins; EKKI GEFA FUGLUNUM. Sumarlegur bakrunnurinn dekkist og verður að lokum blóðrauður. Ein vel feit dúfa stendur upp, pírir augun og flýgur fram af byggingu með hefnd í huga. Þetta eru ekki myrk ragnarök – þetta eru hvítustu DRITARÖK sem heimurinn hefur séð! Dúfan flýgur yfir hús, menn, grill, bekki, þekktar byggingar og flugdreka og dritar sínu hvítasta niðurgangsdriti á þá.

Leikurinn er gerður af þýska smáleikjafyrirtækinu Wolpertinger Games sem hefur gefið út smáleikinn Quizocalypse, og nú Poopocalypse. Stjórnun leiksins er einföld; einn pinninn (analogue stick) stýrir í hvaða átt dúfan flýgur og hinn pinninn stýrir því í hvaða átt dúfan dritar og baktakki er notaður til að stýra flughraða dúfunnar. Leikurinn er einfaldur í spilun og á ekki eftir að sprengja neina heila með flóknum stýringum eða söguþræði.

 

 

Útfærslan á leiknum er mjög vel heppnuð og kemur dökkrauða-hvít-svarta þema leiksins fáránlega vel út. Hljóðin eru skemmtileg og rokktónlistin sem glymur undir á meðan leik stendur passa vel við. Leikurinn er fáanlegur í gegnum vefverslun Xbox 360 og kostar svipað og aðrir óháðir (indie) smáleikir, eða 80 Microsoft punkta (eða í kringum 130 kr.).

Við mælum eindregið með þessum leik ef þú ert að leita þér að smáleik til að spila af og til og ert fyrir shoot ‘em up poop ‘em up.

Þessi smáleikur er klárlega skíturinn!

7,0

indí einkunn

– BÞJ



Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑