Leikjarýni

Birt þann 22. júlí, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: MotorStorm: Apocalypse

eftir Daníel Pál Jóhannsson

(Þetta efni birtist upphaflega í 1. tbl. af Nörd Norðursins sem hægt er að nálgast hér)

MotorStorm: Apocalypse kom út í Evrópu 16. mars 2011, framleiddur af Evolution Studios og gefinn út af Sony. Leikurinn er fjórði leikurinn í MotorStorm seríunni, en hann er óbeint framhald af fyrri leikjum. MotorStorm snýst um hröð farartæki, en hann inniheldur mótorhjól, fjórhjól og öfluga bíla. Farartækin eru sett á svakalegar keppnisbrautir, sem eru síbreytilegar, þar sem spilarinn keppir við allt að 15 andstæðinga í einu. Leikurinn gerist í ónefndri borg, kölluð Borgin, á vestur-strönd Bandaríkjanna. Gríðarlegar náttúruhamfarir hafa riðið yfir borgina og er hún meira og minna í rústum, og vitað er að stórir jarðskjálftar eiga eftir að herja á borgina og valda enn meiri skemmdum. Flestir hafa flúið borgina en einhverjir hafa neitað að fara og eiga þeir það til að skjóta og kasta eldsprengjum á farartækin í keppninni. Til að framfylgja því að enginn sé í borginni er búið að ráða öryggisfyrirtæki sem, berst við íbúa og skýtur á spilarana með vélbyssum og eldflaugum úr þyrlum.

Í einspilun þá fjallar söguþráðurinn um keppni sem er kölluð Hátíðin, en hún byggist á því að allra hörðustu ökumennirnir, sem vilja sanna sig fyrir sjálfum sér og öðrum, keppa sín á milli í Borginni með tilheyrandi hættum. Það eru þrír partar í einspilun, Nýliði (e. Rookie), Fagmaður (e. Pro) og Öldungur (e. Veteran), og eins og nöfnin gefa til kynna þá verður leikurinn erfiðari eftir því sem lengra er komist í leiknum. Leikurinn býður upp á mikla möguleika í fjölspilun, hvort sem þú vilt hafa allt að fjóra spilara á einni tölvu með því að skipta upp skjánum og skemmta þér í sófanum heima með nokkrum vinum eða spila við allt að 15 aðra spilara í gegnum netið. Það sem vert er að benda á er að þótt að fjórir spilarar séu á sömu tölvu þá geta þeir samt sem áður spilað við aðra á netinu. Í fjölspiluninni hefur spilari aðgang að fjölda eiginleika og fær að velja þrjá til að nýta sér í keppninni. Þeir geta haft áhrif á hversu gott grip bíllinn hefur, öflugri högg á aðra bíla og þaðan af. Spilarinn byrjar með takmarkaðan aðgang að þessum eiginleikum en með því að taka þátt í keppnum á netinu þá opnast aðgangur fyrir fleiri og öflugri eiginleikum.

GAGNRÝNI
MotorStorm: Apocalypse er hraður leikur þar sem taka verður ákvarðanir á stuttum tíma. Þar sem spilarinn er á gríðarlegum hraða í gegnum braut sem er síbreytileg og keppinautarnir hika ekki við það að keyra utan í þig þá þurfa viðbrögðin að vera í lagi. Brautirnar eru vel gerðar og mikið lagt í þær. Sumar brautirnar gerast inni í og ofan á háhýsum meðan þau hrynja allt í kringum spilarann. Aðrar gerast á götum eða hafnarhverfi borgarinnar meðan jarðskjálfti opnar brautina niður í göng eða bygging dettur á brautina og breytir ökuleið spilarans.

Hljóðin eru vel gerð og auðvelt er að greina á milli farartækja eftir því hvaða vélarhljóð spilarinn heyrir. Umhverfishljóðin eru frábær og þau hjálpa spilaranum að detta inn í brautina þegar jarðskjálftarnir ríða yfir. Tónlistin er passleg miðað við hvernig leikur þetta er, en getur verið full teknó-leg á köflum. Farartækin eru ágætlega vel gerð og er gaman að sjá fjölbreyttnina. Hægt er að velja um fjölda bíla, mótorhjóla og fjórhjóla og þegar búið er að taka nokkra leiki í fjölspilun fær spilarinn aðgang að aukahlutum til þess að skreyta farartækið sitt. En það sem Evolution Studios klúðruðu var að þegar farartækið klessir hressilega á, þá fær spilari nn ekki tilfinninguna að þetta hafi verið svaka árekstur, heldur tilfinninguna að þetta hafi verið áldós sem hafi beyglast. Í árekstrinum breytist myndavélin og farartækið byrjar að haga sér undarlega miðað við þyngdaraflið í leiknum. Þetta kemur í veg fyrir að spilarinn nái að sökkva sér í leikinn.

Söguþráðurinn í einspiluninni er til staðar. Ekki mikið hægt að segja um hann þar sem ekki er mikið lagt í hann, en samt fínt að hafa einhvern söguþráð. Bara ekki búast við neinum djúpum pælingum.  Í fjölspiluninni liggur gullmolinn fyrir MotorStorm: Apocalypse, en þar hafa framleiðendurnir hitt naglann á höfuðið.

Í fjölspiluninni liggur gullmolinn fyrirMotorStorm: Apocalypse, en þar hafa framleiðendurnir hitt naglann á höfuðið.

Mjög gaman að spila leikinn með nokkrum vinum á sama sjónvarpi, þar sem keppnisskapið blossar upp í fjölspiluninni og magnar skemmtanagildið.  Netfjölspilunin er vel upp sett og það er hún sem mun halda lífi í þessum leik. Það að keppa við allt að 15 andstæðinga býr til spennandi andrúmsloft og gerir leikinn skemmtilegann í þessum hröðu og síbreytilegum brautum.

GRAFÍK: 8,0
HLJÓÐ: 8,0
SAGA: 5,0
ENDURSPILUN: 7,0
FJÖLSPILUN: 9,0
SAMTALS: 7,5


 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑